Forseti Finnlands gestaræðumaður á þingi Norðurlandaráðs

21.10.22 | Fréttir
Finlands president Sauli Niinistö.

Finlands president Sauli Niinistö.

Photographer
Jon Norppa/Republikens presidents kansli
Sauli Niinistö, forseti Finnlands, verður gestaræðumaður á 74. þingi Norðurlandaráðs sem haldið verður í Helsingfors dagana 31. október til 3. nóvember.

Niinistö heldur ræðu fyrir Norðurlandaráð 1. nóvember. Þema ræðunnar verður þýðing norræns samstarfs í ljósi breyttrar stöðu í öryggismálum.

Ræða forsetans verður send út beint á netinu og hefst kl. 16.30 að finnskum tíma (hlekkur fyrir neðan) og í kjölfarið verða umræður í þingsal. Bæði ræðan og umræðurnar verða túlkaðar á finnsku, skandinavísku, íslensku og ensku.

Hefð er fyrir því að Norðurlandaráð bjóði þekktum gestaræðumanni á árlegt haustþing sitt. Í fyrra var gestaræðumaðurinn Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og þemað var varnar- og öryggismál.

„Það er okkur heiður að fá Sauli Niinistö Finnlandsforseta sem gestaræðumann á þinginu og við hlökkum til að heyra hvað hann hefur að segja. Ekki síst núna, í ljósi árásarstríðs Rússa og þeirra óvissutíma sem við lifum á, er mikilvægt að Norðurlandaráð taki virkan þátt í umræðunni um hvað sé unnt að gera til að leysa vandann og styðja við Úkraínu. Það er einnig mikilvægt að við styrkjum hina sameiginlegu norrænu ímynd þess hvernig við tökumst á við þau stóru úrlausnarefni sem heimurinn stendur frammi fyrir,“ segir Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs.

Þema þingsins: Hlutverk Norðurlanda í heiminum

74. þing Norðurlandaráðs verður haldið í þinghúsinu í Helsingfors og verður sett opinberlega þann 1. nóvember kl. 14.30. Á dagskrá fyrsta daginn verður, auk ræðu Finnlandsforseta, leiðtogafundur Norðurlandaráðs og norrænu forsætisráðherranna þar sem þemað verður norrænt samstarf í framtíðinni og hlutverk Norðurlanda í Evrópu og heiminum.

Finnar eru gestgjafar hins árlega haustþings í ár þar sem landið fer með formennsku í Norðurlandaráði árið 2022. Á næsta ári gengur formennskan til Noregs.

Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er opinber samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna. Ráðið skipa 87 þingmenn frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

 

Tengiliðir:

Niina Aagaard

niiaag@norden.org +45 60 39 06 00

Riikka Hietajärvi

press@tpk.fi +358 50 304 7997