Frjáls för í brennidepli á fundi samstarfsráðherranna með Stjórnsýsluhindranaráðinu

02.06.23 | Fréttir
Samarbetsministrarna möts på Island 2023.

Samarbetsministrarna Island 2023

Photographer
Sigurjón Ragnar Sigurjónsson / Norden.org

Norrænu samstarfsráðherrarnir komu saman á Íslandi og funduðu meðal annars með Stjórnsýsluhindranaráðinu.

Frjáls för á Norðurlöndum og hvernig best megi styðja við hana var á dagskrá þegar samstarfsráðherrarnir og Stjórnsýsluhindranaráðið héldu árlegan fund sinn í Reykholti 2. júní.

Á fundinum benti Siv Friðleifsdóttir, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins, á að stjórnsýsluhindranir, það sem stendur í vegi fyrir frjálsri för, séu nú margslungnari en áður. Þess vegna er líka erfiðara að afnema þær. Að mati Sivjar þarf að auka áherslu á hið norræna í ákvarðanatöku landanna heima fyrir til þess að afnema þessar hindranir.

„Þarna verðið þið að hjálpa okkur. Þið eruð í sterkri pólitískri stöðu til að tryggja að löndin setji stjórnsýsluhindranir og áskoranir varðandi frjálsa för í forgang og til að vinna með okkur og öðrum hagaðilum sem koma þar að málum. Þegar upp er staðið er það í flestum tilvikum á færi stjórnvalda landanna að leysa málin,“ sagði Siv Friðleifsdóttir við ráðherrana.

Guðmundir Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra Íslands, sem gegnir formennsku í ráðherranefndinni á þessu ári, lagði áherslu á að frjáls för væri mikið forgangsmál.

„Það er afar mikilvægt að okkur takist að losna við þær hindranir sem standa í vegi fyrir að markmið okkar um að verða samþættasta svæði heims nái fram að ganga. Við verðum að vinna markvisst að því að gera fólki eins auðvelt og kostur er að vinna, stunda nám og flytja milli landa. Þannig náum við markmiðum okkar. Ég held að við náum betri árangri ef við beinum sjónum að þeim málefnasviðum sem við ræddum á fundinum,“ sagði Guðmundur Ingi.

Sex málefnasvið 2023

Á fundinum fengu samstarfsráðherrarnir kynningu á forgangsmálum Stjórnsýsluhindranaráðsins 2023. Málefnasvið ráðsins eru sex og tengjast frjálsri för og samþættingu. Þau eru starfsréttindi í lögvernduðum starfsgreinum, stafvæðing, samstarf þjóðskráa, skattalegar stjórnsýsluhindranir ásamt lífeyrismálum og tölfræðiupplýsingum um landamærasvæðin.

Á fundinum var augum sérstaklega beint að samstarfi þjóðskráa og skattalegum stjórnsýsluhindrunum en unnið er á öllum málefnasviðunum. Á þessu ári eru 30 stjórnsýsluhindranir í forgangi.

Vilja setja stjórnsýsluhindranir á pólitíska dagskrá

Norræna ráðherranefndin hefur síðustu ár unnið markvisst að Framtíðarsýn okkar fyrir 2030 sem hefur að markmiði að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030. Framtíðarsýnin er einnig leiðandi í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á komandi árum og gerðar eru nýjar starfsáætlanir til þess að styðja vinnuna að framtíðarsýninni.

Siv Friðleifsdóttir lagði áherslu á það við samstarfsráðherrana að Stjórnsýsluhindranaráðið fengi skýrt umboð í fyrirhuguðum starfsáætlunum.

„Það hefur ekki tekist til fulls að ná utan um vægi samþættingar innan Norðurlandanna og frjálsrar farar milli landanna í þeirri framkvæmdaáætlun um framtíðarsýnina sem nú er unnið eftir.  Stjórnsýsluhindranaráðið fékk nýtt og aukið umboð 2021 – sem vegur kannski aðeins upp á móti þessari staðreynd. En við erum ekki alveg komin í mark. Þess vegna leggjum við afar ríka áherslu á að stjórnsýsluhindranir og frjáls för verði sett á dagskrá í samstarfsáætlun samstarfráðherranna og þeim starfsáætlunum sem henni munu fylgja,“ sagði Siv Friðleifsdóttir.

Starfsumboð stjórnsýsluhindranaráðsins nær til ársloka 2024 og nýtt umboð tekur gildi 2025 um leið og ný samstarfsáætlun og starfsáætlanir taka gildi.

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð en óháð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda.

Contact information