Frjáls för innan menntasviðsins efld

05.05.22 | Fréttir
MR-U Trondheim
Photographer
Sven-Erik Knoff
Menntamálaráðherrar Norðurlanda skrifuðu í dag undir endurskoðaða útgáfu af Reykjavíkuryfirlýsingunni. Tilgangur endurskoðunarinnar er að undirstrika mikilvægi frjálsrar farar í tengslum við menntamál.

Gagnkvæm viðurkenning á menntun hefur ríkt á milli Norðurlandanna frá árinu 1996. Það þýðir að hægt er að afla sér æðri menntunar í einu norrænu landi og fá hana viðurkennda í hinum norrænu löndunum. Kveðið er á um þessa reglu í „samningi um aðgang að æðri menntun á Norðurlöndum“.

Þótt reglan hafi verið til staðar í mörg ár var þörf á að aðlaga Reykjavíkuryfirlýsinguna til þess að vekja athygli á að gagnkvæm viðurkenning á námi eigi nú einnig, að því marki sem unnt er, að vera sjálfvirk og án óþarfa tafa.

Í endurskoðuðu útgáfunni er því lögð áhersla á skuldbindingu um algera gagnkvæma viðurkenningu á námshæfni og að hindrunum á frjálsri för á menntasviðinu verði rutt úr vegi. Þá er það jafnframt undirstrikað að gagnkvæmt traust og samstarf sé undirstaða sjálfvirkrar viðurkenningar á námshæfni.

Verkefni okkar er að einfalda frjálsa för fyrir Norðurlandabúa. Með því að tryggja að nám verði viðurkennt í öðrum norrænum löndum, að því marki sem mögulegt er, eflum við frjálsa för á Norðurlöndum.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar er ánægð með að menntamálaráðherrarnir lýsi vilja sínum til að styrkja frjálsa för í tengslum við menntamál á Norðurlöndum.

„Samkvæmt framkvæmdaáætlun vegna Framtíðarsýnar okkar 2030 á Norræna ráðherranefndin að vinna að því að stuðla að frjálsri för innan Norðurlanda. Verkefni okkar er að einfalda frjálsa för fyrir Norðurlandabúa. Með því að tryggja að nám verði viðurkennt í öðrum norrænum löndum, að því marki sem mögulegt er, eflum við frjálsa för á Norðurlöndum. Endurskoðun Reykjavíkuryfirlýsingarinnar er liður í að leggja áherslu á skuldbindingar norrænu landanna,“ segir Paula Lehtomäki.

Á fundi sínum í Þrándheimi ræddu ráðherrarnir einnig skilyrði fyrir akademísku tjáningarfrelsi og tiltrú á þekkingu. Það hvernig Norðurlönd geta staðið vörð um akademískt tjáningarfrelsi var ráðherrunum ofarlega í huga. Umræðan á við í dag vegna hræringa í samfélaginu, bæði innanlands sem alþjóðlega, sem ógna grundvallargildum og viðteknum venjum í akademísku samstarfi.

Ráðherrarnir beindu einnig sjónum sínum að því hvernig smábarnakennsla og grunnskólinn geti stuðlað að jöfnum tækifærum fyrir öll börn og ungmenni óháð bakgrunni þeirra og hvernig skólar og leikskólar geti unnið saman með öðrum aðilum.