Hætta á að menningararfurinn gleymist í grænu umskiptunum

Hin litríka timburhúsaröð Bryggen í Bergen í Noregi telst til heimsminja. Þegar borgin bjó sig undir vaxandi úrkomu var ekki komið fyrir grófgerðum drenrörum heldur voru útbúnar regnlautir.
Regnlautir, eða „rain gardens“, geta tekið við miklu regnvatni um leið og þær koma sér vel fyrir líffræðilega fjölbreytni og hlífa fornminjum í jarðlögum.
Lautirnar í Bergen eru nefndar sem gott dæmi um loftslagsaðlögun sem einnig kemur sér vel fyrir menningararf borgarinnar í nýrri norrænni skýrslu „Klimatilpasningstiltak og kulturarv“ (Loftslagsaðlögunaraðgerðir og menningararfur).
Menningarminjar fara forgörðum
Skýrslan er afrakstur norræns verkefnis þar sem áhrif loftslagsaðlögunar á menningararfinn í norrænu löndunum voru skoðuð.
Markmiðið er að skapa aukinn skilning á því hve viðkvæmur menningararfurinn er með tilliti til grænna umskipta.
Í þeim grænu umskiptum sem nú standa yfir eru reist vindorkuver, settar upp sólarrafhlöður og hleðslustöðvar, byggðar flóðvarnir, ræktunarland er ræst fram, hús eru einangruð og gasleiðslur grafnar í jörðu.
Sú hætta er fyrir hendi að um leið breytum við gömlu menningarlandslagi, náttúru- og menningararfi og byggingarumhverfi sem er einkennandi fyrir sinn byggingartíma.
„Við byggðum með sjálfbærum hætti fyrr á öldum“
Að sögn Anniku Haugen, verkefnisstjóra hjá norsku minjastofnuninni, Norsk institutt for kulturminneforskning, gleymist oft að huga að eldra byggingarumhverfi, fornminjum eða menningarlandslagi í tengslum við loftslagsaðlögun.
„En það er mikilvægt að menningarsagan fylgi okkur áfram, bæði með því að taka tillit til menningararfsins en einnig sem uppspretta þekkingar. Við byggðum til dæmis með sjálfbærum hætti fyrr á öldum og í gegnum aldirnar höfum við lært að taka tillit til mikillar úrkomu og annarra veðuröfga við byggingu og staðsetningu mannvirkja. Við megum ekki gleyma sögunni og reyna nú að leysa grænu umskiptin eingöngu með nýjum aðferðum og tækni,“ segir Annika Haugen.
Menningarmiðaðar lausnir
Hún bendir á hugtakið „menningarmiðaðar lausnir“, þ.e. loftslagsaðgerðir í sögulegu ljósi, sem hluta af svarinu við því hvernig við tökumst á við loftslagsbreytingar.
„Í sjálfbærri framtíð eigum við ekki að byggja svona mikið nýtt. Við eigum að gera upp það gamla og endurnýta byggingarefni. Þá mun þekking á gömlum aðferðum, efni og skipulagi skipta mjög miklu máli,“ segir hún.
Dæmi um úthugsuð vindorkuver
Flest sveitarfélög á Norðurlöndum búa sig nú undir aukið úrkomumagn. Sé farin sú sú leið að grafa niður stærri frárennslislagnir er bæði hætta á skemmdum á fornminjum og raski á grunnvatnsfleti sem getur haft í för með sér jarðsig og skemmdir á eldri timburmannvirkjum.
Skýrslan nefnir mörg góð dæmi um það hvernig borgir og bæir hafa búið sig undir stórrigningar, flóð og skriðuföll með aðferðum sem taka tillit til bæði líffræðilegrar fjölbreytni og menningararfsins.
Einnig eru nefnd dæmi um það hvernig koma má sólar- og vindorkuverum þannig upp að komist verði hjá breytingum á menningarlandslagi og menningararfi.
Sérfræðingar um menningararfinn komi að málum
Í skýrslunni er mælt með aðkomu allra greina samfélagsins snemma í ferlinu, bæði þegar kemur að því að koma upp nýjum og endurnýjanlegum orkugjöfum og þegar kemur að beinni loftslagsaðlögun.
Fornleifafræðingar, arkítektar, húsaminjaverðir, líffræðingar og aðrir sérfræðingar á sviði náttúru- og menningararfs byggðarinnar ættu einnig að hafa aðkomu og móta viðbúnaðaráætlanir og mat á umhverfisáhrifum.
Lagt er til að komið verði á fót norrænu samstarfsneti sérfræðinga ásamt gagnagrunni með góðum dæmum um verkefni þar sem tekið hefur verið tillit til menningararfsins við loftslagsaðlögunina.
Nokkur dæmi um loftslagsaðlögun þar sem tillit var tekið til menningararfsins:
1. Regnlautir í miðbæ Drammen í Noregi
2. Þverlæg áætlun vegna stórrigninga í Kaupmannahöfn
3. Menningarminja- og flóðavarnir í Vågå í Noregi
4. Styrking 100 ára gamalla þanggarða (tångvallar) til varnar flóðum í Falsterbo í Svíþjóð
5. Kirkja frá miðöldum sem var í hættu vegna strandeyðingar tekin niður í Mårup í Danmörku
6. Sjálfbærnivæðing og loftslagsaðlögun byggingarumhverfis í Tjärna ängar og Huseby bruk í Svíþjóð
7. Sólarorkuver sem koma í stað sólarorkurafhlaðna á húsum í Gråsten á Jótlandi í Danmörku
8. Sjálfbær uppgerð á húsum í Realdania í Danmörku
9. Sólarsellur innbyggðar í húsveggi í Drammen í Noregi
10. Varnir gegn grjóthruni þannig úr garði gerðar að þær hefðu sem minnst sjónræn áhrif á landslagið í Lom í Noregi