Heimssýningin World Expo: Velkomin í framtíð heilbrigðis- og félagsþjónustu

28.01.22 | Fréttir
Expo 2020
Photographer
Mikael Carboni Kelk
Norrænir hönnunarnemar sýna heimsbyggðinni hugmyndir sínar um hvernig framtíð heilbrigðis- og félagsþjónustu verður árið 2030. Þetta átti sér stað í finnska skálanum á heimssýningunni, World Expo, í dag, en þar er markmiðið að færa norðrið og heiminn allan fram á veginn. Afrakstur nemendanna endurspeglar Framtíðarsýn okkar 2030 sem Norræna ráðherranefndin hefur gefið út.

Undanfarna þrjá mánuði hafa norrænir og erlendir hönnunarnemar við háskólann í Aalto og hönnunarsvið háskólans í Umeå unnið hörðum höndum að því að reyna að sýna hvernig heilbrigðis- og félagsþjónusta framtíðarinnar mun líta út árið 2030. Vinna þeirra er mikilvægur hluti af norræna samvinnuverkefninu „integrated Healthcare and Care through Distance-spanning Solutions“ (iVOPD/iHAC). Það eru Norræna velferðarmiðstöðin og Miðstöð um lækningar í dreifbýli – Region Västerbotten sem standa að verkefninu sem er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og er nú kynnt á heimssýningunni sem dæmi um norrænt samstarf á sviði stafrænnar heilbrigðis- og félagsþjónustu.

„Ef við ætlum að verða félagslega sjálfbærasta svæði heims árið 2030 þurfum við stafræn umskipti og þau umskipti verða að vera réttlát og ná til fólks á strjálbýlum svæðum rétt eins og allra annarra. iVOPD stuðlar að þessu og að Framtíðarsýn okkar 2030, sérstaklega hvað viðvíkur því að Norðurlönd verði félagslega sjálfbær og samkeppnishæf,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Réttlát umskipti fyrir íbúa á afskekktum svæðum

Lýðfræðin er að breytast sums staðar á Norðurlöndum og sumt fólk býr á strjálbýlum og jafnvel afskekktum stöðum þar sem aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu er takmarkað. Þess vegna hleyptu Svíar iVOPD af stokkunum á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni 2018. „Með þessu verkefni höfum við reynt að flýta fyrir stafrænum umskiptum innan heilbrigðis- og félagsþjónustu á afskekktum og strjálbýlum svæðum með því að miðla verklagi, veita innblástur og styðja við samþættingu þjónustu innan heilbrigðisþjónustu og umönnunar,“ segir Niclas Forsling, verkefnastjóri hjá Miðstöð um lækningar í dreifbýli – Region Västerbotten.

Student at Aalto University
Photographer
Design student at Aalto University

Lausnir með augum ungra hönnuða

Til þess að sýna dæmi um ákjósanlegt verklag með nýjum hætti var efnt til samstarfs iVOPD og háskólans í Aalto. Árangurinn af þessu má sjá í finnska skálanum í dag.

Ég held að afrakstur verkefnisins geti verið hvatning, vakið spurningar og varpað ljósi á vandann,“ segir Severi Uusitalo, prófessor í iðnhönnun við háskólann í Aalto. Hann heldur áfram: „Nemendur fengu það verkefni að búa til hugmynd sem nálgast tiltekið viðfangsefni út frá þemanu. Árangurinn er hugmyndir sem takast á við úrlausnarefni norræna heilbrigðiskerfisins út frá Framtíðarsýn okkar 2030. Hugmyndirnar eru allt frá því að styðja við andlega velferð og draga úr skerðingu á hugrænni færni vegna elliglapa til færanlegrar og aðgengilegrar segulómunar. Rauði þráðurinn er að stytta vegalengdir, t.d. hvað varðar sjúkdómsgreiningu barna og tengingu við heilbrigðisstarfsfólk og ættingja með tækninni.“

World Expo – beint vefstreymi

Healthcare and Care through Distance-spanning Solutions (iVOPD) er flaggskip Norðurlanda á heimssýningunni í ár. Í dag var verkefnið kynnt í finnska skálanum. Hinn 1. febrúar verður það hluti af umræðum í sænska skálanum, þar sem Niclas Forsling, verkefnastjóri hjá Miðstöð um lækningar í dreifbýli – Region Västerbotten, mun ræða framtíð heilbrigðisþjónustu ásamt öðrum sérfræðingum. Umræðurnar verða í beinu netstreymi 1. febrúar kl. 12.45–13.30 á Facebook-rás okkar.   

 

Ef við ætlum að verða félagslega sjálfbærasta svæði heims árið 2030 þurfum við stafræn umskipti og þau umskipti verða að vera réttlát og ná til fólks á strjálbýlum svæðum rétt eins og allra annarra.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar