Hin fimm verðlaun Norðurlandaráðs afhent í Helsinki

01.11.17 | Fréttir
Vinnarna av Nordiska rådets priser 2017
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Kirsten Thorup, Ulf Stark, Linda Bondestam, Selma Vilhunen, Kaarle Aho, Kai Nordberg, Susanna Mälkki og Jonne Hellgren frá fyrirtækinu RePack hlutu verðlaun Norðurlandaráðs við hátíðlega athöfn í Finlandia-húsinu í Helsinki á miðvikudagskvöld.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Danski höfundurinn Kirsten Thorup hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Erindring om kærligheden („Minning um ástina“, óþýdd). Niðurlag rökstuðnings dómnefndar hljóðar svo: „Erindring om kærligheden er kolsvört skáldsaga, full visku. Hún leggur net sín í hið sammannlega dýpi á þann hátt sem aðeins sannar bókmenntir geta gert.“

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Sænski höfundurinn Ulf Stark, sem nú er látinn, og finnski myndskreytirinn Linda Bondestam hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Djur som ingen sett utom vi („Dýr sem enginn hefur séð nema við“, óþýdd). Þetta hafði dómnefndin að segja um verkið:

Djur som ingen sett utom vi er afurð norrænnar samvinnu eins og hún gerist allra best. Í sameiningu hafa Ulf Stark rithöfundur og Linda Bondestam myndabókahöfundur skapað alveg einstaka bók.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Little Wing (Tyttö nimeltä Varpu) eftir Selmu Vilhunen, leikstjóra og handritshöfund, og framleiðendurna Kaarle Aho og Kai Nordberg hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2017. Svona hófst rökstuðningur dómnefndar:

„Í Little Wing fangar Selma Vilhunen stórbrotnar og sammannlegar tilfinningar með látlausum stílbrögðum og sýnir að sem leikstjóri og handritshöfundur býr hún yfir óvenju mikilli næmni.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Finnski hljómsveitarstjórinn Susanna Mälkki hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og fékk þessa ljómandi umsögn hjá dómnefndinni:

Susanna Mälkki er fjölhæfur og einlægur listamaður í fremstu röð. Hún er jafnvíg á sígilda tónlist og samtímatónlist og þekkt fyrir að fara eigin leiðir á sígilda sviðinu. Hún er einn fremsti hljómsveitarstjóri heims.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Jonne Hellgren, framkvæmdastjóri finnska fyrirtækisins RePack, hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs með þessum rökstuðningi: „fyrir að skapa gott og umhverfisvænt viðskiptatækifæri, sem er aðgengilegt og nýstárlegt, og fyrir að vekja athygli á endurnýtingu, óhóflegri auðlindanotkun og myndun úrgangs.“

Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum. Þau voru afhent af fyrri handhöfum verðlaunanna í Finlandia-húsinu í Helsinki í tengslum við þing Norðurlandaráðs.