Á hraðferð til framtíðar

22.07.18 | Fréttir
Udvalget for vækst og udvikling i Norden
Photographer
André H. Jamholt / norden.org
Stokkhólmur – Helsinki á 30 mínútum getur orðið að raunveruleika eftir tíu ár. Norðurlöndin geta orðið heiminum fyrirmynd varðandi hraðar, þægilegar og umhverfisvænar samgöngur. „Við verðum bara að koma okkur saman um sambærileg lög og reglur um Hyperloop,“ segir Pyry Niemi.

Hagvaxtar- og þróunarnefnd Norðurlandaráðs fékk á sumarfundi sínum í Torneå í Finnlandi kynningu frá fulltrúum Hyperloop þar sem greint var frá nýjustu þróun verkefnisins og áætlun um tilraunaleið í finnska sveitarfélaginu Salo.

„Hyperloop er samgöngukerfi þar sem vagnarnir svífa fáeinum sentimetrum yfir segulmögnuðum teinum. Vagnarnir fara um rör og göng þar sem er undirþrýstingur til þess að koma í veg fyrir loftmótstöðu. Hyperloop getur náð sama hraða og farþegaflug nær nú, þ.e. millli 800 og 1000 km á klukkustund,“ segir Mårten Fröjdö sem er stofnandi FS-links.

Fröjdö leggur áherslu á að Hyperloop sé ekki framtíðarsýn heldur byggist á tækni sem þegar er fyrir hendi og sannreynd. Hann telur að þróunin muni halda áfram óháð innviðastefnu hvers einstaks ríkis. Allnokkur fyrirtæki vinna þegar að þróun þessarar sömu tækni.

Samræmd lög

Lagasetning er þó ein af höfuðáskorunum Hyperloop. Skilgreina verður Hyperloop og hvaða reglur eigi að gilda um það.

„Það er ótrúlega mikilvægt að löggjafinn í norrænu ríkjunum styðji okkur með því að þróa lög og reglur sem skilgreina Hyperloop. Án þess komumst við ekki áfram,“ segir Malcolm Sjödahl, framkvæmdastjóri markaðsþróunar hjá Ramböll í Svíþjóð.

Hyperloop er ein þeirra nýskapandi samgöngulausna sem sýna fram á þörfina fyrir að endurvekja norrænu ráðherranefndina um samgöngumál - Pyry Niemi.

 

 

 

Framleiðslukostnaður Hyperloop mun nema um 60 prósentum af kostnaðinum við að byggja venjulega háhraðajárnbraut. Viðhaldskostnaðurinn er einnig talsvert lægri vegna þess að um er að ræða lokað kerfi sem veður og vindur nær ekki til. Framkvæmdastjóri markaðsþróunar hjá OHL Sverige, Daniel Frank, telur að framleiðslukostnaðurinn verði jafnvel lægri með áframhaldandi þróun tækninnar.

Biðja Finnland að taka forystu

Kynningin á Hyperloop vakti áhuga meðal fulltrúa í norrænu hagvaxtar og þróunarnefndinni sem ákvað að skrifa samgönguráðherra Finnlands, Anne Berner. Nefndin hvetur Anne Berner og Finnland til þess að styðja tilraunbrautina í Salo og sjá tækifærið í almennri þróun Hyperloop-tækninnar á Norðurlöndum. Nefndin biður einnig Anne Berner um að ræða við og hvetja norræna kollega sína til þess að sýna hinni nýju tækni áhuga. Loks biður nefndin um að vera upplýst um þróun Hyperloop á Norðurlöndum og hina umræddu tilraunabraut í Salo.

Norræna hagvaxtar og þróunarnefndin hafði áður samþykkt að fara þess á leit að norrænu samstarfsráðherrarnir endurvektu ráðherranefndina um samgöngur sem var lögð niður fyrir nokkrum árum. Nú er þessi afstaða ítrekuð með auknum þunga.

„Hyperloop er ein af mörgum samgöngulausnum sem sýna fram á þörfina fyrir að endurvekja norrænu ráðherranefndina um samgöngumál en Ingvar Havnens leggur það einnig til í nýútgefinni skýrslu sinni um samgöngumál. Við verðum að samhæfa samgönguinnviði á Norðurlöndum í framtíðinni. Það er einnig í samræmi við markmið forsætisráðherranna um nýskapandi og samþætt Norðurlönd,“ segir Pyry Niemi, formaður norrænu hagvaxtar og þróunarnefndarinnar.