Hross í oss framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2014

03.09.14 | Fréttir
Lars von Trier
Kvikmyndin Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson er sú íslenska kvikmynd sem tilnefnd er til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár og keppir þar með við fjórar aðrar afburða góðar myndir frá Finnlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Fimm þjóðir, fimm kvikmyndir, ein verðlaun! Hér með er tilkynnt um kvikmyndirnar fimm sem eru tilnefndar til hinna eftirsóttu Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Allar eru kvikmyndirnar framúrskarandi í alþjóðlegu samhengi og hafa þegar unnið til verðlauna á stærstu kvikmyndahátíðum í Evrópu og víðar.

Sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, sem hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða um 7.5 milljónir íslenskra króna, er mynd sem er runnin undan rifjum Norrænnar menningar og af miklum listrænum gæðum. Hún verður einnig að vera framúrskarandi hvað varðar listrænan frumleika og flétta saman á fágðan máta undirstöðuatriði kvikmyndalistarinnar svo úr verði sannfærandi heild. Að mati dómnefnda hafa þær fimm myndir sem tilnefndar eru að þessu sinni til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs einmitt þessa kosti til að bera, en myndirnar fimm eru (sjá meðfylgjandi ítarefni fyrir frekari upplýsingar):

Nymphomaniac - Danmörk

Leikstjóri/handritshöfundur Lars von Trier og framleiðandi Louise Vesth

Concrete Night - Finnland

Leikstjóri/handritshöfundur Pirjo Honkasalo, handritshöfundur Pirkko Saisio og framleiðendur Mark Lwoff og Misha Jaari

Of Horses and Men - Ísland

Leikstjóri/handritshöfundur Benedikt Erlingsson og framleiðandi Friðrik Þór Friðriksson

Blind - Noregur

Leikstjóri/handritshöfundur Eskil Vogt og framleiðendur Sigve Endresen og Hans Jørgen Osnes

Force Majeure - Svíþjóð

Leikstjóri/handritshöfundur Ruben Östlund og framleiðendur Erik Hemmendorff og Marie Kjellson

Íslenska dómnefndin

Í íslensku dómnefndinni sátu Kristín Jóhannesdóttir, Björn Ægir Norðfjörð og Auður Ava Ólafsdóttir. Þau rökstyðja val sitt með eftirfarandi orðum: „Hross í oss er einstaklega frumleg kvikmynd og hana einkennir kraftmikið myndmál sem er samtvinnað hljóðheimi sem gefur áhorfendum tilfinningu fyrir „dýrinu innra með manninum“ svo vitnað sé í Zola. Kvikmyndin birtir eilífa tilraun mannsins til að beisla náttúruna og hversu ömurlega mistækur hann er í viðleitni sinni – jafnan með hörmulegum afleiðingum.

Leikstjórinn Benedikt Erlingsson kemur á meistaralegan hátt til skila merkingu og hugmyndum í gegnum menn og dýr til jafns í þessari sérviskulegu ástarsögu um skipti manna og hesta.

Sagan er sögð frá sjónarhorni dýrsins, en þaðan fylgjast áhorfendur með tragikómískri hegðun mannskepnunnar. Hið sérstæða sjónarhorn ljær Hross í oss ekki einungis einstaka ljóðrænu heldur einnig myrkan kómískan blæ, sem gerir kvikmyndina auðkennandi fyrir Ísland.“

Rjómi norrænnar kvikmyndagerðar

Petri Kemppinen, framkvæmdastjóri Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins segir eftirfarandi um tilnefningarnar í ár: „Myndirnar sem tilnefndar eru, eftir jafnt nafnkunnt sem nýtt kvikmyndagerðarfólk, standa fyrir þær sem fremstar eru í flokki norrænna nútímakvikmynda. Þær birta tilfinningar mannskepnunnar og krafta náttúrunnar á einstaklega ólíkan og fjölbreyttan máta. Það er með stolti sem Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn, ásamt samstarfsfélögum, færir áhorfendum á Norðurlöndunum kvikmyndirnar sem tilnefndar eru áður en tilkynnt verður um sigurvegarann í október.“

Kvikmyndaviðburður í Háskólabíói

Íslendingar munu hafa tækifæri til þess að sjá allar þessar frábæru myndir sem tilnefndar eru í ár, því Græna ljósið stendur fyrir Norrænni kvikmyndaveislu í Háskólabíói  dagana 18. – 21. september þar sem allar fimm myndirnar verða sýndar.

Verðlaunin verða veitt þann 29. október

Kunngjört verður um sigurvegarann þann 29. október næstkomandi og verður það í 11. sinn sem verðlaunin verða veitt. Í fyrra vann mynd Thomasar Vinterberg Jagten og fyrri ár myndirnar Play (2012), Beyond (2011), Submarino (2010), Antichrist (2009), You, The Living (2008), The Art of Crying (2007), Zozo (2006), Manslaughter (2005) and The Man Without A Past (2002).

Hér má lesa frekar um Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs og horfa á stiklur úr kvikmyndunum sem eru tilnefndar:
www.nordiccouncilfilmprize.com