Hugveita: Eflt samstarf um áhrif tæknirisa á Norðurlöndum

18.04.23 | Fréttir
Nordisk rapport tech och demokrati
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Hvað þarf að gera til að Norðurlönd geti tryggt sér sterka stöðu gagnvart áhrifum tæknirisa á lýðræðissamfélög okkar? Í dag verða kynntar tillögur norrænnar hugveitu um tækni og lýðræði sem norrænir ráðherrar menningarmála höfðu frumkvæði að fyrir ári síðan.

Samfélagsmiðlar á borð við Facebook, YouTube, Instagram og Twitter eru órjúfanlegur hluti af lýðræðisinnviðum samfélaga okkar og hversdagslífi Norðurlandabúa. Í skýrslu hugveitunnar kemur fram að þrátt fyrir jákvæða möguleika geti miðlarnir og algóritmar þeirra engu að síður haft alvarleg neikvæð áhrif á lýðræðið og opinbera umræðu.


Við áttum okkur öll á því að auka þarf pólitískt eftirlit með tæknirisunum til að lýðræðissamfélög þrífist samhliða sífellt aukinni stafvæðingu á 21. öld. Stóra spurningin er ekki lengur hvort þurfum að auka lýðræðislegt eftirlit með tæknirisum, heldur hve fljótt við munum þurfa það. Norðurlöndin ættu að taka forystu í þessum málum og vísa veginn,“ segir formaður hugveitunnar, Tobias Bornakke, doktor í stafrænum aðferðum og meðeigandi Analyse & Tal.
 

Hugsmiðjan, sem samanstendur af sérfræðingum frá Norðurlöndum, leggur áherslu á fimm framtíðarsýnir og ellefu ráðleggingar um hvernig efla má lýðræðisumræðu á netinu. 
 

Áhersla á börn og ungmenni

Tillögur hugveitunnar fela meðal annars í sér markvissar aðgerðir til að stuðla að stafrænu læsi, auknu öryggi fyrir börn og ungmenni á netinu, ritstjórn efnis og meðhöndlun rangra upplýsinga sem skapaðar eru af gervigreind. 


„Við á Norðurlöndum erum á meðal stafvæddustu landa heims en við vitum ekki nógu mikið um hvernig tæknirisarnir starfa. Börn okkar og ungmenni verja mjög miklum tíma á netinu, og þá sérstaklega samfélagsmiðlum, án þess að við vitum í raun hver áhrif þess eru til langs tíma. Ég hef áhyggjur af því að þetta hafi neikvæðari áhrif á þau en við kunnum að telja. Hugveitan mælir með því að við sem Norðurlönd stöndum saman að því að herða alþjóðlega löggjöf um tæknirisa. Hugveitan mælir einnig með því að aukin áhersla verði lögð á börn og ungmenni á netinu með auknu eftirliti. Ég styð það,“ segir Jakob Engel-Schmidt, menningarmálaráðherra Danmerkur, sem verður viðstaddur þegar hugveitan kynnir tillögur sínar í Kaupmannahöfn.
 

Norrænt samstarf um alþjóðlega áskorun

Skýrslan er gott dæmi um það hverju norrænt samstarf getur áorkað þegar öll leggjast á eitt frammi fyrir sameiginlegri áskorun. Þetta er málefni sem er ofarlega á baugi og mikill áhugi ríkir um það í öllu samfélaginu á Norðurlöndum, bæði meðal íbúa, fjölmiðla og stjórnmálamanna. 

„Það er ófrávíkjanlegt verkefni að standa vörð um lýðræðið á Norðurlöndum Norrænt samstarf er mikilvægt því við erum lítil lönd með lítil málsvæði, en ef við stöndum saman heyrist rödd okkar betur bæði á Norðurlöndum og alþjóðlegum vettvangi,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Ellemann heldur áfram: 

„Ég hlakka mjög til að kynna ráðleggingar hugveitunnar fyrir norrænum menningarmálaráðherrum þegar þeir koma saman á sameiginlegum fundi í maí. Þar viljum við hefja umræður milli ríkisstjórna Norðurlandanna fyrir alvöru og verða fróðari um hvernig við á Norðurlöndum getum fundið bestu mögulegu lausnirnar.
 

Upplýsingar fyrir fjölmiðla

Upplýsingar fyrir fjölmiðla

Tillögurnar verða kynntar kl. 14:00 hinn 18. apríl í Kaupmannahöfn. Blaðamenn og ljósmyndarar þurfa að tilkynna þátttöku sína fyrir fram. Gilds blaðamannaskírteinis er krafist.
 

Tengiliður: Elisabet Skylare, elisky@norden.org, +45 21717127.

Tengiliður