Ný norræn hugveita skoðar áhrif tæknirisanna

31.05.22 | Fréttir
sociala medier
Ljósmyndari
Signe Goldmann_Ritzau Scanpix
Ný norræn hugveita á að fara í saumana á áhrifum tæknirisanna á lýðræði á Norðurlöndum og leggja fram tillögur að úrbótum. Hugveitan er skipuð norrænum sérfræðingum og er liður í stærri aðgerð norrænu menningarmálaráðherra landanna á þessu sviði.

Áhrif tæknirisanna á lýðræðislegar umræður hafa aukist undanfarin ár. Norðurlöndin eru komin hvað lengst á sviði stafvæðingar í heiminum og opinber umræða og samtöl fara í sívaxandi mæli fram í netheimum. Menningarmálaráðherrarnir kynna nú til sögunnar nýja norræna hugveitu sem skipuð er sérfræðingum frá öllum Norðurlöndum.

Það er von ráðherranna að með samnorrænni aðgerð takist að safna saman þekkingu og reynslu frá öllum löndunum. Danska menningarmálaráðuneytið leiðir og samhæfir störf hugveitunnar. Ane Halsboe-Jørgensen menningarmálaráðherra segir:

„Tæknirisarnir eru gríðarlega fyrirferðarmiklir í daglegu lífi íbúa Danmerkur og hafa áhrif á lýðræðislegt samfélag til góðs og ills. Stafvæðingin er langt komin á Norðurlöndum þar sem við deilum heilbrigðri gagnrýnni afstöðu til áhrifa tækninnar á samfélög okkar. Þess vegna er norræn tæknihugveita tilvalið verkfæri til að öðlast meiri þekkingu á því hvernig og í hve miklum mæli algóritmar hafa áhrif á okkur og lýðræðið og hvernig við getum beitt stefnumótun til að gera þróunina lýðræðislega. Ég hlakka til að sjá niðurstöðurnar og þá umræðu sem hugveitunni tekst vonandi að kveikja. Við þurfum á henni að halda.“

Efla umræðu á Norðurlöndum

Verkefni hugveitunnar verður að efla umræðu á Norðurlöndum um áhrif tæknirisanna á lýðræðið svo löndin verði betur í stakk búin til að takast á við áskoranir í framtíðinni Meðal annars verður skoðað nánar hvaða áhrif norræn samfélög vilja að tæknirisarnir hafi í opinberri umræðu og hvernig tryggja megi að tæknirisarnir styðji opið lýðræðislegt samtal fremur en að grafa undan því. Tobias Bornakke, yfirmaður hugveitunnar segir:

„Vettvangar eins og Facebook, Youtube og TikTok eru lýðræðisleg félagsheimili okkar tíma. En á undanförnum áratug hafa rannsóknir og skýrslur uppljóstrara ítrekað sýnt fram á að tæknirisarnir og algóritmar þeirra fela í sér mikla áskorun fyrir lýðræðislegt samtal. Við sjáum hatrið magnast, hvernig erlendur áróður litar umræðuna og andstæðurnar aukast. Vandinn er sá að algóritmarnir sem stýra opinberri umræðu eru hannaðir til að þjóna sérhagsmunum tæknirisanna fremur en hagsmunum samfélagsins. Ég vona að okkur takist með hugveitunni að benda á aðgerðir til þess að bregðast við áskorunum sem ógna stafrænni umræðu samtímans.“

Fulltrúar í hugveitunni

Fyrsti fundur hugveitunnar verður í lok sumars en í tengslum við hann verður haldinn viðburður þar sem fleiri en fulltrúum hugveitunnar gefst kostur á að leggja fram hugmyndir fyrir starfið framundan. Hugveitan mun starfa í eitt ár en tillögur hennar verða kynntar fyrri hluta ársins 2023.

 • Tobias Bornakke (Danmörku) [formaður]
 • Anja Bechmann (Danmörku)
 • Martin Holmberg (Svíþjóð)
 • Carl Heath (Svíþjóð)
 • Bente Kalsnes (Noregi)
 • Sumaya Jirde Ali (Noregi)
 • Minna Aslama Horowitz (Finnlandi)
 • Hanna Haaslahti (Finnlandi)
 • Þorgeir Ólafsson (Íslandi)
 • Elfa Ýr Gylfadóttir (Íslandi)
 • Jákup Brúsá (Færeyjum)
 • Signe Ravn-Højgaard (Grænlandi)
 • Fredrik Granlund (Álandseyjum)

Ein aðgerð af mörgum

Þá hafa norrænu menningarmálaráðherrarnir pantað skýrslu frá Norrænu gagnamiðstöðinnni um fjölmiðlarannsóknir (Nordicom) við Gautaborgarháskóla um áhrif tæknirisanna á starfsskilyrði fréttamiðla. Nordicom kynnti skýrsluna „COVID-19 och de nordiska nyhetsmedierna“ árið 2021. Hún sýnir æ hraðari breytingar á fjölmiðlamarkaði eins og tilfærslu auglýsingafjármagns frá innlendum auglýsingamiðlum til alþjóðlegra auglýsingavettvanga.