Nýtt átak: Hver eru áhrif tæknirisa á lýðræðislegar umræður á Norðurlöndum?

03.11.21 | Fréttir
Nordiska kulturministrar
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Skoða þarf áhrif tæknirisa á þróun fréttamiðla á Norðurlöndum - og raunar áhrif þeirra almennt á lýðræðislegar umræður. Þetta var boðskapur norrænu menningarmálaráðherranna sem ákváðu á ráðherrafundi á miðvikudag að efna til samnorræns átaks til þess að afla frekari þekkingar á þessu sviði.

Umræðan um ráðandi hlutverk tæknirisa (Apple, Facebook, Google og fleiri) er jafn mikilvæg í hverju og einu norrænu landanna og á alþjóðavísu. Sífellt stærri hluti lýðræðislegra umræðna á sér stað á netinu og aukin notkun stafrænna vettvanga í heimsfaraldrinum hefur aukið á áhyggjur af innviðum tæknirisanna. Norræn sjónarhorn á þetta málefni voru rædd á ráðherrafundi á miðvikudaginn í Kaupmannahöfn.

Með því að taka ákvörðun um samnorrænt átak ætlum við ekki aðeins afla reynslu og þekkingar frá átta löndum á skemmri tíma en ella heldur fá lykilaðila í hverju landi fyrir sig til þess að vinna nánar saman að málum sem tengjast áhrifum tæknirisanna. 

Antti Kurvinen, formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2021

„Við aðstæður eins og þessar, þegar við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum, verður norrænt samstarf sérlega mikilvægt. Með því að taka ákvörðun um samnorrænt átak ætlum við ekki aðeins afla reynslu og þekkingar frá átta löndum á skemmri tíma en ella heldur fá lykilaðila í hverju landi fyrir sig til þess að vinna nánar saman að málum sem tengjast áhrifum tæknirisanna. Það er mikilvægt og eykur gildi þessa átaks,“ segir Antti Kurvinen, rannsóknar- og menningarmálaráðherra Finnlands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2021

Frjáls fjölmiðlun og lýðræðislegar umræður

Um leið og fjölþjóðlegir miðlar tæknirisanna hafa gert fleira fólki fært að láta í sér heyra og vera virkt í umræðum þá koma reglulega upp flókin mál og áskoranir. Þau snúast um allt frá skattlagningu, einkarétti og auglýsingatekjum til algríma sem stýra því hvaða efni er sýnt, notkun persónuupplýsingar og félagslegrar vanlíðunar meðal ungs fóks en grundvallaratriðið er þó að þetta vekur upp spurningar um hvernig lýðræðislegar umræður eiga að vera. 

„Þessar öru breytingar gera það að verkum að stafrænir innviðir tæknirisanna setja umræðum og miðlun upplýsinga ramma, jafnt almenningi, stjórnmálafólki sem fjölmiðlum. Í þessu felst mikil áskorun og metnaður norræns samstarfs fram til 2030 er að bæta skilyrðin fyrir áframhaldandi öruggri og lýðræðislegri umræðuhefð fyrir Norðurlandabúa og norræna fjölmiðla, einnig á netinu,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Næstu skref

Norrænu menningarmálaráðherrarnir ætla að veita einni milljón danskra króna alls í umfangsmikið átak sem hefst með því að gerð verður skýrsla um áhrif tæknirisa á umhverfi fréttamiðla. Skýrslan verður skrifuð/unnin af Nordicom, miðstöð norrænna fjölmiðlarannsókna við Gautaborgarháskóla. Nordicom hefur áður gefið út skýrsluna „COVID-19 och de nordiska nyhetsmedierna“ (COVID-19 og norrænu fréttamiðlarnir) sem sýnir fram á örar breytingar á fjölmiðlamarkaði, meðal annars flutning á fjármagni sem varið er til auglýsinga frá innlendum auglýsingamiðlum til alþjóðlegra miðla.

Verkefni annars hluta átaksins verður skilgreint nánar út frá umræðum ráðherranna á fundinum en markmiðið er að þar verði unnið með sjónarhorn annarra málefnasviða svo sem stafvæðingu, menntun, jafnrétti, tungumáli og sjónarhorn barna og ungmenna. Gert er ráð fyrir að vinnan hefjist í ársbyrjun 2022.