Lea Wermelin: „Við erum í miðri náttúrukrísu“

17.09.20 | Fréttir
Danmarks miljöminister
Photographer
Henning Bagger/Ritzau Scanpix
Líffræðileg fjölbreytni þarf að vera efst á pólitísku dagskránni jafnt á Norðurlöndum í heild sem innan hvers lands. Á þessa leið hljóða viðbrögð norrænna stjórnmálamanna og ungra aðgerðasinna við nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna, Global Biodiversity Outlook. Skýrslan sýnir að ekki eitt einasta af markmiðunum tuttugu í alþjóðlegri stefnu um líffræðilega fjölbreytni 2011–2020 er að fullu uppfyllt.

Samkvæmt Global Biodiversity Outlook fækkar tegundum örar en nokkru sinni fyrr. Það getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér, ekki síst fyrir viðkvæmt jafnvægi vistkerfa í náttúrunni, en einnig með tilliti til þeirra náttúruauðlinda sem maðurinn reiðir sig á um allan heim til að lifa af.

 

Mannkynið stendur á tímamótum hvað verndun líffræðilegrar fjölbreytni viðvíkur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu SÞ sem kom út á þriðjudag.

Ritað stórum stöfum

„Í mörg ár hefur allt of lítið verið að gert til að vernda náttúruna, bæði hér heima fyrir og alþjóðlega. Ef einhver skyldi vera í vafa um að við séum stödd í miðri náttúrukrísu þá kemur það skýrt fram í nýju skýrslunni frá SÞ. Það er ekki nógu gott að við sem alþjóðasamfélag séum svo langt frá þeim markmiðum sem við settum okkur í sameiningu,“ segir Lea Wermelin, umhverfisráðherra Danmerkur og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál.

 

Rétt eins og annars staðar í heiminum hefur líffræðileg fjölbreytni fallið í skuggann af loftslagsumræðunni á Norðurlöndum en nú fær málaflokkurinn aukna athygli, einkum frá yngri kynslóðum.

Ungir talsmenn líffræðilegrar fjölbreytni

„Við unga fólkið tökum vanda líffræðilegrar fjölbreytni jafn alvarlega og loftslagsvandann. Framtíð okkar er undir og við viljum ekki framtíð með fátæklegu gróður- og dýralífi og náttúru. Við óttumst hvað hnignun líffræðilegrar fjölbreytni kann að hafa í för með sér fyrir vistkerfi heimsins. Þess vegna krefjumst við aðgerða núna, áður en það verður of seint,“ segir Emma Susanna Turkki sem er virk í hópnum De Unge Biodiversitetsambassadører og situr í norrænum ráðgjafahópi ungmenna um líffræðilega fjölbreytni.

Líffræðileg fjölbreytni í kastljósið

Nýlega ákvað Norræna ráðherranefndin að setja aukinn kraft í aðgerðir til að tryggja líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu hafs og náttúru á Norðurlöndum. Um leið munu norrænu löndin í sameiningu setja mark sitt á alþjóðlegar viðræður um nýtt og metnaðarfult regluverk í þágu líffræðilegrar fjölbreytni.

 

„Það er skýr framtíðarsýn mín að árið 2021 getum við gengið frá metnaðurfullum samningi í þágu náttúrunnar og líffræðilegrar fjölbreytni til næstu tíu ára, Parísarsáttmála náttúrunnar. Það þýðir að leiðtogar heimsins geri með sér samkomulag um að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og tryggja náttúrunni góð lífsskilyrði í framtíðinni,“ segir Lea Wermelin.

Norrænt samstarf stendur einnig fyrir verkefni sem tryggja á aðkomu ungs fólks að viðræðum um ný markmið um líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030.

Leysa þarf vandann í samhengi

Kolbeinn Óttarsson Proppé, talsmaður Norðurlandaráðs um líffræðilega fjölbreytni, undirstrikar sömuleiðis að Norðurlönd ættu að hvetja til enn metnaðarfyllri markmiða þegar samið verður um nýja stefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni í Kína á næsta ári.

 

„Líffræðileg fjölbreytni hefur staðið í skugga loftslagsbreytinganna en það er mikilvægt að við tökumst á við þessar tvær áskoranir samtímis. Til að það megi verða þurfum við að virkja bæði almenning og ungt fólk í viðræðunum,“ segir Kolbeinn sem situr á Alþingi og í norrænu sjálfbærninefndinni.

Ungt fólk vill alvöru skuldbindingar

Gustaf Zachrisson frá Svíþjóð vinnur að því ásamt ungu fólki frá öllum Norðurlöndum að koma fram með beinar tillögur fyrir viðræðurnar um nýjan alþjóðasamning um líffræðilega fjölbreytni til 2030.

 

„Hvað þurfum við að fá margar skýrslur áður en við sjáum einhverjar aðgerðir? Við vitum nú þegar nóg til að bregðast við vandanum. Ungt fólk væntir þess að sjá raunverulegar skuldbindingar, bæði alþjóðlega og heima fyrir, sem hafa áhrif hér og nú. Það er lykilatriði að setja náttúrukrísuna í algjöran forgang,“ segir Gustaf.