Leysa verður úr norrænu landamæraeftirliti á vettvangi ESB

19.04.16 | Fréttir
Henrik Dam Kristensen
Ljósmyndari
Morten Brakestad
Lausnir á vettvangi ESB og öflugra norrænt samstarf þarf að koma til, eigi að takast að leysa flóttamannavandann og afnema landamæraeftirlit á Norðurlöndum. Þetta lögðu margir ræðumenn áherslu á í umræðum um landamæraeftirlit á þemaþingi Norðurlandaráðs í Ósló.

Michael Tetzschner frá flokkahópi hægrimanna var á meðal þeirra sem nefndu hlutverk ESB og mikilvægi skilvirks Schengen-samstarfs til að leysa flóttamannavandann. „Það verður ekki hægt að afnema landamæraeftirlit á Norðurlöndum fyrr en stjórn hefur verið náð á ytri landamærum ESB,“ sagði hann.

„Verði skilvirkni ekki aukin í Schengen-samstarfinu verður ekkert annað í stöðunni en að halda landsbundnu landamæraeftirliti áfram, einnig í okkar heimshluta, svo lengi sem fólksstreymið heldur áfram,“ sagði Tetzschner, sem sagðist þó vona að landamæraeftirlit á Norðurlöndum yrði aðeins tímabundið.

Að umræðunum loknum spurði blaðamaður Tetzschner hvort röksemdafærsla hans fæli það ekki í sér að ESB fengi að taka yfir vissa þætti sem alla jafna heyra undir norrænt samstarf.

„Jú, það má segja það. Við ráðum ekki við að halda frjálsri för án vegabréfs áfram ef Schengen-samstarfið er ekki skilvirkt og ef Dyflinnarreglugerðin verður úr leik.“

Aukið norrænt samstarf

Margir ræðumanna tjáðu einnig eindregna ósk um aukið norrænt samstarf um afnám landamæraeftirlitsins.

„Ef ytri landamæri ESB og hið nýja dreifingarfyrirkomulag flóttafólks innan ESB virka ekki sem skyldi, þá verðum við á Norðurlöndum að tala saman og finna út úr því hvernig best sé að bregðast við aðstæðum. Þá verða ráðherrarnir okkar að ræða saman og leita lausna, sagði Phia Andersson frá flokkahópi jafnaðarmanna.

„Verði skilvirkni ekki aukin í Schengen-samstarfinu verður ekkert annað í stöðunni en að halda landsbundnu landamæraeftirliti áfram, einnig í okkar heimshluta, svo lengi sem fólksstreymið heldur áfram.“

 

Frummælandi í umræðunum var finnski ráðherrann Anne Berner, sem er formaður norrænu samstarfsráðherranna. Hún tjáði fulltrúum Norðurlandaráðs að samstarfsráðherrarnir hefðu, á fundi sínum fyrir umræðurnar, ákveðið að setja aukinn kraft og úrræði í aðgerðir til aðlögunar og efla starf sem miðar að því að draga úr neikvæðum áhrifum landamæraeftirlits. Markmiðið er frjáls för á Norðurlöndum.

„Sérstakar aðstæður“

Carl Haglund frá flokkahópi miðjumanna var ánægður með loforð samstarfsráðherranna.

„Það er gott að viðhorf ráðherranefndarinnar sé á þá leið að þetta sé tímabundin lausn, og að þeir ætli að láta til sín taka í aðgerðum sem til lengri tíma munu stuðla að því að leysa úr þessum aðstæðum.“

Juho Eerola, fulltrúi Norræns frelsis, lagði fram þá tillögu að Norðurlandaráð skipaði starfshóp sem hefði það verkefni að finna leiðir til að bæta norræna innflytjendastefnu.

„Í hópnum væru fulltrúar allra flokkahópa, svo og þeirra flokka sem ekki tilheyra flokkahópum,“ sagði Eerola.

Á blaðamannafundi að umræðunum loknum sagði forseti Norðurlandaráðs, Henrik Dam Kristensen, að Norðurlönd væru nú í sérstökum aðstæðum og að sérstakar aðstæður kölluðu á sérstakar lausnir.

„Þess vegna virði ég þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, en sem norrænn stjórnmálamaður vona ég innilega að þær verði aðeins til skamms tíma.“

Vefvarp

Michael Tetzschner um hlutverk ESB í flóttamannavandanum og mikilvægi þess að Schengen-samstarfið sé skilvirkt: