Maria Sid kynnir á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Finlandia-húsinu

29.09.17 | Fréttir
Maria Sid
Photographer
Privatfoto
Finnska leikkonan Maria Sid mun bjóða gesti velkomna þegar fimm verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent 1. nóvember nk. í Finlandia-húsinu í Helsinki. Hin tilnefndu og fyrri verðlaunahafar ásamt forsætisráðherrum og öðru stjórnmálafólki frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum verða meðal viðstaddra við verðlaunaafhendinguna.

„Ég hef alltaf átt heima á Norðurlöndum. Við göngum um sömu skógana og syndum í sama sjónum eins og stór norræn fjölskylda. Þess vegna er mér mikill heiður að verða kynnir á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs,“ segir Maria Sid.

Finnar fagna aldarafmæli fullveldisins á þessu ári og munu þau tímamót setja svip sinn á dagskrána. Fanny Forsander, Annika Ruokolahti, Linne Hjerppe og Drumphonix stunda tónlistarnám við Novia-háskólann og munu troða upp með Rajaton og Isac Elliot. Þá verður sýndur dans undir stjórn Sonya Lindfors ásamt rapparanum Gracias. 

Finnska ríkissjónvarpið YLE sýnir beint frá verðlaunaafhendingunni og dagskráin verður einnig boðin hinum ríkissjónvarpsstöðvum á Norðurlöndum.

Fyrri verðlaunahafar afhenda verðlaunin að þessu sinni en þau eru verðlaunastytta Norðurlandaráðs, Norðurljósið og 350 þúsund danskar krónur.

Tilnefningar á þessu ári:

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

 

Norræna ráðherranefndin hefur gert yfirlit yfir kynjahlutföll meðal tilnefndra og verðlaunahafa menningarverðlauna Norðurlandaráðs á fyrri árum.

Fyrir verðlaunaafhendinguna gefst kostur á að hitta marga tilnefnda rithöfunda á bókamessunni í Helsinki sunnudaginn 29. október.

Daginn eftir, þann 30. október, verða umræður með tilnefndum til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í Korjaamo Kino, en þar verða myndir þeirra einnig sýndar.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í tengslum við 69. þing Norðurlandaráðs sem fram fer í finnska þinghúsinu.