Menntun og umönnun á fyrstu æviárunum mynda undirstöðuna sem restin af ævinni byggist á

02.04.19 | Fréttir
Barn leker med lego
Ljósmyndari
Kelly Sikkela / Unsplash
Mörg lönd líta til leikskólakerfa Norðurlanda, sem þykja aðgengileg og opin og blanda saman umönnun, leik og menntun á einstakan hátt. Á Norðurlöndum er menntun og umönnun á fyrstu árunum álitin grunnur að allri menntun síðar á ævinni. Lögð er áhersla á að fjárfesta í góðum uppvaxtarskilyrðum fyrir börn.

Hópur af 300 kennurum, forystufólki og fræðafólki frá 48 löndum sóttu „The Nordic Way“, tveggja daga ráðstefnu um leikskólamál þar sem norræna leikskólakerfið var í brennidepli.

Í stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni barna og ungmenna kemur fram að Norðurlönd eigi að vera besti staðurinn til að alast upp á. Þetta er mikilvæg sýn og henni fylgir ábyrgð. Hún þýðir að Norðurlönd þurfa áfram að vísa veginn og stuðla að góðum uppvaxtarskilyrðum fyrir börn og ungmenni.

Norræna ráðherranefndin lagði því fram fjármagn til stuðnings ráðstefnunni „The Nordic Way“, en það voru norska þekkingarráðuneytið og norska kennarasambandið sem stóðu fyrir ráðstefnunni. Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri ráðherranefndarinnar, sagði í opnunarræðu sinni að málefni barna og ungmenna væru í forgangi. Norðurlönd hefðu mikilvægu hlutverki að gegna.

Á Norðurlöndum hafa síðustu áratugi verið þróuð kerfi sem byggja á aðgengilegri menntun og umönnun sem styðja við fjölskyldulíf, jafnvægi milli vinnu og frítíma og jafnrétti kynjanna, ásamt góðum velferðarúrræðum.

Allir með til framtíðar

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, telur að góð menntun og umönnun á fyrstu æviárunum séu grundvöllur þess að börn og ungmenni geti tileinkað sér þá færni sem framtíðin mun krefjast af þeim.

- Þetta leggur grunn að tækifærum barna til að dafna og þroskast síðar á ævinni. Börn og ungmenni eru mikilvæg hér og nú, ekki bara sem auðlind til framtíðar. Það er mikilvægt að börn fái jöfn tækifæri til að dafna og þroskast. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið í heild að allir séu með og taki þátt, segir Lehtomäki.

Norræna ráðherranefndin hefur því sett af stað eigið verkefni sem kallast færni til framtíðar. Verkefnið snýr að mörgum þeim gildum sem við eigum sameiginleg og stöndum vörð um á Norðurlöndum. Lýðræði, tjáningarfrelsi, heiðarleika, jafnrétti og gagnsæi. Gildi okkar vísa okkur veginn og hjálpa okkur að skapa og þróa nýjar lausnir og að framkvæma þær. Það er lykilatriði að skapa góð uppvaxtarskilyrði sem tryggja traust og félagsleg tengsl. Norðurlönd geta þróað góðar lausnir í sameiningu.

Börn og ungmenni eru mikilvæg hér og nú, ekki bara sem auðlind til framtíðar.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri

OECD horfir til Norðurlanda

Samkvæmt Miho Taguma, yfirráðgjafa hjá OECD, er framtíðarfærni ekki ný af nálinni. Fólk á öllum tímum hefur þurft að læra nýja færni.

- Það sem er nýtt í dag er hversu hratt börn og ungmenni þurfa að laga sig að breytingum. Spurningin er hvaða færni þau muni þurfa til þess að skapa sér góða framtíð í heimi gervigreindar, „stórgagna“ og „interneti hlutanna“. Á sama tíma koma fram spurningar um mannlega greind og gildi. Framtíðarfærni þarf því að vera heildræn, þetta snýst um þekkingu, hæfni, viðhorf og gildi, segir Taguma.

Framtíðarfærni þarf því að vera heildræn, þetta snýst um þekkingu, hæfni, viðhorf og gildi

Miho Taguma, yfirráðgjafi hjá OECD.

Grundvöllur þessarar færni er góð menntun og umönnun á fyrstu æviárunum. Barnæska, velferð barna og leikur og nám í gegnum þátttöku og uppgötvun eru í kjarna norræna líkansins. Börnin okkar, forvitnin og sköpunarkrafturinn sem þau búa yfir eru mikilvægasta auðlind okkar.

OECD hefur horft til framtíðarfærni frá því seint á tíunda áratugnum og nú síðast var sett af stað verkefnið „Education 2030 – The Future of Education and Skills“. Leikskólakerfi Norðurlanda hafa verið verkefninu innblástur.

- Leikskólahefðin á Norðurlöndum byggir á vellíðan, ekki einungis vellíðan einstaklingsins heldur vellíðan heildarinnar. Börn læra í gegnum virka þátttöku og með því að kanna og skapa saman, segir Taguma að lokum.