Nicholas Kujala frá Finnlandi nýr forseti Norðurlandaráðs æskunnar

27.10.19 | Fréttir
Nicholas Kujala, president för Ungdomens Nordiska råd 2019-2020.

Nicholas Kujala, president för Ungdomens Nordiska råd 2019-2020.

Ljósmyndari
Matts Lindqvist
Nicholas Kujala frá Finnlandi er nýr forseti Norðurlandaráðs æskunnar (UNR). Hann var kjörinn á þingi Norðurlandaráðs æskunnar á sunnudaginn.

Í atkvæðagreiðslunni hafði Nicholas Kujala betur gegn Önnu Falkenberg frá Færeyjum með 53 atkvæðum gegn 36. Nicholas Kujala er 24 ára félagi í Svensk ungdom og er fulltrúi Nordiska Centerungdomens Förbund í Norðurlandaráði æskunnar.

„Ég er orðlaus. Það er ótrúleg tilfinning að vera sýnt svona mikið traust,“ sagði ánægður nýr forseti eftir að úrslitin voru ljós.

Kujala er eftirmaður Barböru Gaardlykke Apol frá Færeyjum sem var forseti á tímabilinu 2018-2019.

Kujala hyggst sem forseti Norðurlandaráðs æskunnar vinna að framtíðarsýn ráðsins og hann leggur höfuðáherslu á þrjá þætti: fjármögnun ungmennageirans, hagsmunagæslu Norðurlandaráðs æskunnar og norðurslóðir.

Fjármögnun skiptir máli

„Við sjáum bæði í norræna samhenginu og innan landanna okkar að þrengt er að fjármögnun ungmennageirans. Á þessu verðum við að taka því án fjármögnunar getum við ekki unnið að þeim málefnum sem eru okkur mikilvæg,“ segir Nicholas Kujala.

„Við þurfum líka að bæta hagsmunagæslu okkar. Það þýðir að við verðum að verða betri í því að vinna með þingmönnum okkar heima fyrir og í Norðurlandaráði. Í þriðja lagi þurfum við að leggja meiri áherslu á norðurslóðir en verið hefur.“

„Ungmenni eru hér og nú“

Nicholas Kujala vill einnig að Norðurlandaráð æskunnar miðli afstöðu sinni, verði betra í því að greina frá hugmyndum sínum og verði sýnilegra í umræðum.

„Ungmenni eru ekki framtíðin, ungmenni eru hér og nú,“ segir hann.

Kujala hefur tekið þátt í norrænu starfi í áraraðir. Hann hefur meðal annars verið fulltrúi í alþjóðlegri nefnd regnhlífarsamtaka ungmennageirans í Finland Allians þar sem hann starfaði að norrænum málefnum á vettvangi Evrópusambandsins. Þá hefur Kujala setið í forsætisnefnd Norðurlandaráðs æskunnar undanfarið ár. Hann leggur stund nám á líffræði í háskólanum í Helsinki og hefur einnig numið stjórnmálafræði í Helsinki.

Kujala er kjörinn til tímabilsins 2019-2020. Kjörtímabilið nær fram til næsta þings haustið 2020.

 

Nánari upplýsingar:

Nicholas Kujala, +358 45 159 4399, nicholas.kujala@su.fi

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.