Einu skrefi nær norrænu samstarfi um samgöngur?

31.10.19 | Fréttir
Sigurður Ingi Jóhannsson speaks in Plenum, Riksdagen
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi kom samstarfsráðherra Íslands öllum á óvart með því að galopna á endurnýjað samstarf um samgönguinnviði á Norðurlöndum og koma þannig til móts við þingmenn.

Þingmenn Norðurlandaráðs hafa ítrekað óskað eftir því að ríkisstjórnir Norðurlanda endurreisi Norrænu ráðherranefndina um samgöngumál. Hún var lögð niður árið 2005 og forsætisráðherrarnir hafa hingað til hafnað því að taka upp samstarfið á ný. Nú opnar samstarfsráðherra Íslands hins vegar á að Norðurlandaráði verði að ósk sinni.

Sigurður Ingi Jóhannsson er einnig samgönguráðherra á Íslandi og lítur svo á að samgöngumálin séu mikilvæg forsenda þess að Norðurlönd geti uppfyllt framtíðarsýnina um að verða samþættasta svæði heims.

„Við höfum unnið að þessu í ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn.  Við höfum rætt að það kunni að vera nauðsynlegt að koma á fót ráðherranefnd um samgöngumál. Ég tek undir það að í framtíðinni verði ráðherranefndin einnig að fjalla um samgöngumál ef við eigum að verða samþættasta svæðið,“ sagði Sigurður Ingi úr ræðustólnum í sænska þinghúsinu.

Ég tek undir það að í framtíðinni verði ráðherranefndin einnig að fjalla um samgöngumál ef við eigum að verða samþættasta svæðið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Íslands

Einn þeirra sem unnið hafa ötullega að þessu máli í mörg ár er Stein Erik Lauvås sem situr í Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni og er skýrslugjafi nefndarinnar um samgöngumál. Hann hefur ítrekað gagnrýnt norrænu ríkisstjórnirnar fyrir skort á samstarfsvilja þegar kemur að samgöngumálum. Nú telur hann að hreyfing sé komin á hlutina.

„Það er ánægjulegt að sjá samgönguráðherra Íslands taka fullkomlega undir það með Norðurlandaráði að það sé mikilvægt að stofna ráðherranefnd um samgöngumál. Ég geri ráð fyrir að hann hafi stuðning hinna samgönguráðherranna á Norðurlöndum,“ segir Lauvås.

Hann leggur áherslu á að Norðurlandaráð njóti stuðnings atvinnulífsins í því að stofna vettvang fyrir samstarf á sviði samgönguinnviða á milli Norðurlanda.