Fækka á sjálfsvígum á Norðurlöndum

31.10.19 | Fréttir
Selvmord i Norden skal mindskes
Photographer
Martin Zachrisson
Velferðarnefnd Norðurlandaráðs telur það áhyggjuefni hve margir íbúar á Norðurlöndum þjást af vanlíðan og fremja á endanum sjálfsvíg. Að mati nefndarinnar ættu Norðurlöndin að sameinast um forvarnaraðgerðir og deila þekkingu og bestu mögulegu starfsháttum sín á milli.

„Við getum ekki setið aðgerðalaus meðan ungmenni á Norðurlöndum fremja sjálfsvíg áður en líf þeira hefst fyrir alvöru. Þess vegna verða norrænu löndin að deila þekkingu hvert með öðru og finna í sameiningu fyrirbyggjandi lausnir fyrir ungmenni og annað fólk í áhættuhópi fyrir sjálfsvíg,“ segir Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar. Tillagan er lögð fram af flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.  

Við getum ekki setið aðgerðalaus meðan ungmenni á Norðurlöndum fremja sjálfsvíg áður en líf þeira hefst fyrir alvöru.

 

 Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar

Margvíslegur aðdragandi

Daglega verða tíu sjálfsvíg á Norðurlöndum. Í Noregi falla sex sinnum fleiri fyrir eigin hendi en látast í umferðarslysum. Sjálfsvíg eiga sér margvíslegan og persónubundinn aðdraganda en í grófum dráttum samanstendur áhættuhópurinn af ungmennum sem glíma við vanlíðan, einstaklingum með geðrænan vanda, eldra fólki sem þjáist af einmanaleika, syrgjandi fólki og fólki sem misnotar fíkniefni. Þar sem orsakirnar eru margvíslegar er snúið að fyrirbyggja vandann. Velferðarnefndin lætur þó ekki deigan síga og hyggst leggja til við Norrænu ráðherranefndina að hún komi á samstarfi um þessi mál og fastsetji það sameiginlega markmið að draga úr sjálfsvígum um 25 prósent, auk þess að stefna að því að fyrirbyggja alveg sjálfsvíg ungmenna undir 18 ára aldri.        

Óhamingjusöm ungmenni á hamingjuríku svæði

Í þessu samhengi virðist þversagnakennt að Norðurlöndin skuli mælast með hamingjusömustu löndum heims, samkvæmt skýrslunni Skyggen af Lykke („Hamingjuskugganum“). Um leið blasir við að sjálfsvíg eru algeng í löndum okkar. Margir rannsakendur telja sífelldan samanburð við annað fólk eiga þátt í hárri tíðni sjálfsvíga. Ef allir í kringum mann virðast glaðir og ánægðir getur depurð og vanlíðan orðið enn þungbærari. Það er enn ein breytan í ástandi sem er flókið fyrir.

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Norðurlandaráð var stofnað árið 1952. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.