Norðurlandaráð á fundi með Svetlönu Tíkanovskaju, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús

02.09.20 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir och Svetlana Tichanovskaja

Silja Dögg Gunnarsdóttir och Svetlana Tichanovskaja

Ljósmyndari
Kristján Sveinsson

Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs og Svetlana Tíkanovskaja

Norðurlandaráð og Svetlana Tíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, hittust á fjarfundi. Á fundinum fékk Norðurlandaráð nýjar fréttir af ástandinu í Belarús og gafst enn fremur kostur á að lýsa stuðningi sínum við stjórnarandstöðuna í landinu.

„Við viljum lýsa eindregnum stuðningi við íbúa Belarús og öll lýðræðisleg öfl í landinu. Öll verðum við að gera það sem í okkar valdi stendur til að styðja við friðsamleg umskipti til lýðræðis. Hitt þarf einnig að vera ljóst að það eru íbúar Belarús sem verða að stjórna ferðinni og ákveða sjálfir framtíð sína“, sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs á fundinum hinn 2. september.

Silja Dögg kvað Norðurlandaráð hafa verulegar áhyggjur af ástandinu í Belarús og bætti við að ráðið styddi ætíð lýðræði, grundvallarreglur réttarríkisins, mannréttindi og jafnræði allra einstaklinga.

„Okkur er sannur heiður að hitta þig og við dáumst að hugrekki þínu“, sagði Silja Dögg og beindi orðum sínum beint til Svetlönu Tíkanovskaju.

Tíkanovskaja í Litáen

Svetlana tók þátt í fundinum frá Litáen en þangað fór hún beint eftir forsetakosningarnar 9. ágúst þegar einræðisherrann Alexander Lúkasjenkó lýsti enn á ný yfir sigri í kosningum. Samkvæmt óháðum kosningaeftirlitsmönnum setti svindl mark sitt á kosningarnar og hefur ESB, svo að dæmi sé tekið, ekki samþykkt niðurstöður þeirra.

Á fundinum færði Svetlana Norðurlöndum og Evrópu þakkir.

„Ég vona að þið vitið hversu mikla þýðingu stuðningur Norðurlanda og annarra Evrópulanda hefur fyrir mig og fólkið okkar í Belarús. Hann sýnir að við stöndum ekki ein í baráttunni fyrir frelsi og í því felst mikil hughreysting. Kærar þakkir fyrir stuðninginn. Ég vil líka segja að við erum ekki lengur andstöðuaflið, við erum í meirihluta. Það eru stjórnvöld sem eru í andstöðu,“ sagði Svetlana Tíkanovskaja.

Auk forsetans sátu fundinn af hálfu Norðurlandaráðs varaforsetinn Oddný G. Harðardóttir og formenn landsdeildanna, Erkki Tuomioja (Finnlandi), Hans Wallmark (Svíþjóð), Bertel Haarder (Danmörku) og Michael Tetzschner (Noregi).

Alexander Dabravolski (frá the Coordinating Council of the Belarusian opposition) og Vytis Jurkonis, forstjóri Freedom House í Vilníus, voru einnig á fundinum.

Árvissir fundir með fulltrúum Belarús

Fundarstjóri var Erkki Tuomioja, skýrslugjafi um Belarús í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Erkki minnti meðal annars á þau tengsl sem væru milli Norðurlandaráðs og Belarús. Norðurlandaráð hefði haldið fundi með stjórnarandstöðunni í Belarús, frjálsum félagasamtökum og fulltrúum stjórnvalda frá árinu 2007.

„Þessir árlegu fundir hafa mikla þýðingu fyrir Norðurlandaráð. Við munum einnig framvegis halda þá og gera okkar ítrasta til að stuðla að jákvæðri þróun í Belarús“, sagði Erkki.

Hann áréttaði að fundir með stjórnarandstöðunni í Belarús væru að hluta til mikilvægir til að Norðurlandaráð gæti sýnt eindreginn stuðning við lýðræðisöflin í landinu og að hluta til svo að það gæti stuðlað að samtali milli aðila.

Tengiliður