Norðurlandaráð ræðir COVID-19 og samfélagsöryggi

28.09.20 | Fréttir
Votering vid Nordiska rådets session i Stockholm 2019
Photographer
Johannes Jansson
Norðurlandaráð mun ekki hittast í ár en engu að síður fer mikið pólitískt starf fram í vikunni þegar þingið hefði undir venjulegum kringumstæðum verið haldið. Meðal annars verður rætt um COVID-19 og hvernig heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á Norðurlöndum og þá verða ýmsir fundnir haldnir, allir rafrænt.

Vika 44 hefur alla jafna mikla þýðingu fyrir árlegt þing Norðurlandaráðs – norræna leiðtogafundinn mikilvæga þar sem bæði þingmenn og ráðherrar hittast til að taka þátt í umræðum og eiga samtöl.

Í ár stóð til að halda 72. þingið í Reykjavík dagana 27. til 29. október en kórónuveiran setti strik í reikninginn. Í þetta sinn verða engar þingumræður með fulltrúunum 87 í Norðurlandaráði en engu að síður verður mikið um stjórnmálastarf alla vikuna.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs, fjórar nefndir og flokkahóparnir fimm munu funda samkvæmt áætlun og einnig eru ráðgerðir fundir milli mismunandi nefnda og ráðherra og milli forsætisnefndar og ráðherra.

Ráðherraumræður um heimsfaraldurinn

Þar að auki hefur forsætisráðherrum allra landanna verið boðið á sameiginlegan fund með öllum fulltrúum Norðurlandaráðs þann 27. október. Hugmyndin með þessu er að fundarmenn fái tækifæri til að ræða áhrif COVID-19 og heimsfaraldursins á Norðurlönd og norrænt samstarf. Umræðunum verður streymt í beinni útsendingu á netinu.

„Mér finnst líklegt að umræðurnar verði sérstaklega áhugaverðar þar sem viðfangsefnið er í brennidepli um þessar mundir. Norðurlönd hafa auðvitað beitt mismunandi áherslum í baráttunni við veiruna og það verður spennandi að hlusta á röksemdafærslur landanna. Ég vona að við getum lært af mistökum okkar til að við getum forðast að endurtaka þau þegar erfiðleika steðjar að framtíðinni. Í öllu falli er ljóst að við verðum að standa okkur betur í að vinna saman á erfiðleikatímum,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Á meðan faraldurinn hefur geisað hefur Norðurlandaráð lagt áherslu á að efla norrænt samstarf. Í apríl sendi forsætisnefnd ráðsins bréf til forsætisráðherra landanna með áskorun um nánara samstarf á erfiðleikatímum. Í bréfinu kallaði forsætisnefndin einnig eftir áhættugreiningu og viðbragðsáætlun fyrir Norðurlönd og lagði til að óháð norræn neyðarviðbúnaðarnefnd yrði stofnuð.

Forsætisnefnd fundar með forsætisráðherrum

Sama dag og rætt verður um COVID-19 er einnig áformað að forsætisnefnd og forsætisráðherrar fundi til að ræða áætlun um samfélagsöryggi sem Norðurlandaráð samþykkti á þinginu 2019. Áætlunin felur í sér ýmsar tillögur um aukna norræna samvinnu um samfélagsöryggi.

Nú hafa forsætisráherrarnir skilað umsögnum um áætlunina að beiðni ráðsins, en forsætisnefndin er ekki ánægð með svörin.

„Við erum vonsvikin og hissa á þeim svörum sem við fengum. Við þær aðstæður sem nú eru uppi er mikilvægara en nokkru sinni að innleiða það sem lagt er til í áætluninni. Á fundinum með forsætisráðherrunum fáum við tækifæri til að fá bein svör um hvað þau hyggjast gera við tillögur okkar,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Næsta dag halda umræður áfram um sama efni, en forsætisnefnd hefur einnig boðið ráðherrum sem bera ábyrgð á almannavörnum til fundar um samfélagsöryggi.

Samkvæmt drögum að dagskrá vikunnar mun forsætisnefnd einnig funda með öðrum ráðherrum 27. og 28. október, meðal annars samstarfsráðherrum Norðurlanda.

Forsætisnefnd starfar fyrir hönd þingsins

Þar sem hefðbundið þing verður ekki haldið í ár verða engir þingfundir þar sem allt Norðurlandaráð kemur saman. Ýmis málefni sem samkvæmt samþykktum þarf að afgreiða á þingi verða því afgreidd á annan hátt í þetta sinn. Þetta felur í sér að forsætisnefnd tekur ákvarðanir fyrir hönd þingsins um málefni sem ekki er hægt að fresta til næsta þingfundar.

Meðal annars er um að ræða kosningu á forseta og varaforseta fyrir 2021.

Æskan slær tóninn

Pólitíska vikan hefst í raun laugardaginn 24. október þegar Norðurlandaráð æskunnar heldur sitt þing. Vikunni lýkur með fundi forsætisnefndar 29. október.

Þetta er í fyrsta sinn sem Norðurlandaráð frestar þingi sínu frá því að fyrsta þingið var haldið árið 1953 í Kristjánsborgarhöll (þinghúsinu) í Kaupmannahöfn.

Horfðu á verðlaunaafhendinguna í sjónvarpi eða með beinu streymi

Norðurlandaráð mun einnig veita verðlaun í fimm flokkum í þingvikunni. Í ár verður engin verðlaunahátíð haldin á Íslandi en flest verðlaunanna verða afhent rafrænt og með fjarútsendingum.

Allir á Norðurlöndum geta fylgst með heima í stofu þegar bókmennta-, barna- og unglingabókmennta-, kvikmynda-, tónlistar- og umhverfisverðlaunin verða afhent þriðjudaginn 27. október í óhefðbundinni sjónvarpsútsendingu sem skipulögð verður í samvinnu við RÚV.

 

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.