Norðurlandaráð tók þátt í 30 ára afmæli Eystrasaltskeðjunnar

23.08.19 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Photographer
Johannes Jansson/norden.org

Silja Dögg Gunnarsdóttir er frá Íslandi og er fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

„Kæru baltnesku vinir. Heimurinn dáðist að ykkur 23. ágúst 1989 og við dáumst að ykkur enn.“ Þetta var kveðja fulltrúa Norðurlandaráðs, Silju Daggar Gunnarsdóttur, á 30 ára afmæli viðburðarins sem kallaður hefur verið Eystrasaltskeðjan, þegar tvær milljónir manna mynduðu keðju fólks gegnum öll Eystrasaltslöndin til að leggja áherslu á sjálfstæði gagnvart Sovétríkjunum.

Afmælið var haldið hátíðlegt í Ríga daginn sem 30 ár voru liðin frá viðburðinum og Norðurlandaráð tók þátt í hátíðahöldunum. Silja Dögg Gunnarsdóttir sem situr í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og var fulltrúi ráðsins í afmælinu bar í ræðu sinni lof á kjark borgara Eystrasaltslandanna fyrir 30 árum. „Eystrasaltskeðjan gerði Eystrasaltslöndin að hetjum á sínum tíma. Fólk um allan heim dáðist að kjarki, Eista, Letta og Litháa og viðleitni þeirra til þess að endurheimta réttmætt sjálfstæði sitt,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Öflugt samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja

Hún ræddi einnig gott samstarf Norðurlandaþjóða og Eystrasaltsríkjanna.

„Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja blómstrar. Eystrasaltssvæðið og það norræna eru meðal þeirra svæða sem eru best samþætt í heiminum. Samfélög okkar byggja á lýðræði, grundvallarreglum réttarríkis og mannréttindum. Óvissan sem nú ríkir í þróun í Evrópu og um allan heim mun aðeins auka vægi samstarfs okkar,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Meira en tvær milljónir manna mynduðu Eystrasaltskeðjuna sem var 600 kílómetra löng og náði í gegnum öll þrjú Eystrasaltsríkin. Fréttir herma að aðgerðin í Eystrasaltsríkjunum fyrir þrjátíu árum hafi verið innblástur fyrir mótmælendur dagsins í dag í Hong Kong.

Contact information