Norðurlönd og Eystrasaltsríkin leggja áherslu á samstarf um öryggis- og loftslagsmál

26.11.19 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir, præsident i Nordisk Råd og Janis Vucans, præsident i Baltisk Forsamling
Ljósmyndari
norden.org
Utanríkis- og öryggismál og loftslags- og umhverfismál eru ofarlega á blaði í þingmannasamstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna fyrir næstu tvö árin. Áætlun um samstarfið var samþykkt á fundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsríkjaráðsins þann 9. desember.

Í skjalinu, sem inniheldur áætlun fyrir tímabilið 2020–2021, segir meðal annars að í hinu norræn-baltneska samstarfi verði áhersla lögð á utanríkis- og öryggismál, þar á meðal samfélagsöryggi og það að standa vörð um lýðræðið. „Þetta sendir öflug skilaboð þess efnis að norrænu ríkin og Eystrasaltsríkin muni vinna ötullega að því að efla öryggi og öryggiskennd á Eystrasaltssvæðinu. Við höfum orðið vitni að vaxandi spennu á svæðinu undanfarin ár og því er mikilvægt að við sýnum að Norðurlönd og Eystrasaltslöndin standi saman um að auka öryggi á svæðinu,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs 2020.

Átta áherslusvið

Í samstarfsskjalinu er áhersla einkum lögð á átta tiltekin svið. Efst á listanum er svið öryggismála auk loftslags- og umhverfismála, en einnig er talað um samstarf á sviðum stafrænnar væðingar, gervigreindar, jafnréttis, hringrásarhagkerfis, samstarfs um orkumál og samgöngur auk frjálsrar farar.

Auk þess er vakin athygli á samstarfi um baráttu gegn spillingu, sem er talið sérlega mikilvægt með hliðsjón af félagslegum áhrifum spillingar.

Ennfremur eru löndin hvött til að kanna möguleika á gagnkvæmri viðurkenningu á prófum, líkt og Eystrasaltsríkin stunda nú þegar sín á milli.

Í skjalinu er áhersla lögð á að Norðurlönd og Eystrasaltslöndin deili sömu gildum hvað snertir djúpstæða virðingu fyrir lýðræðinu, grundvallarreglur réttarríkisins, jafnrétti, mannréttindi og sjálfbæra þróun.

Tengiliður