Norðurlönd og Eystrasaltsríkin stefna hátt með gervigreind

14.05.18 | Fréttir
Digitaliseringsministrene i Stockholm
Ljósmyndari
Ninni Andersson /Regjeringskanseliet
Norðurlönd og Eystrasaltsríkin útvíkka samstarfið til að halda forystu sinni á sviði stafrænnar væðingar í Evrópu. Löndin hyggjast efla samstarf um þróun gervigreindar og notkunar hennar í þágu samfélagsins.

Árið 2017 ákváðu ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna að svæðið ætti að verða leiðandi á sviði stafrænnar væðingar. Yfirlýsing ESB er í fullu samræmi við þetta markmið.

Gervigreind getur átt þátt í að leysa stór viðfangsefni samfélagsins og komið að góðu gagni á ýmsum sviðum. Tækifærin leynast í því að innleiða fyrirliggjandi tæknilausnir og þekkingu með það fyrir augum að auka hagræðingu og verðmæti. Auk þess verði gervigreind aðgengilegri og gagnlegri og hún þróuð enn frekar í þá átt að hún henti á fleiri sviðum.

„Mikilvægt er að okkur takist betur að nýta upplýsingar og gervigreind við nýsköpun og þróun lausna á stórum samfélagslegum viðfangsefnum. Það á ekki síst við um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og aukna hagræðingu í samgöngugeira. Einnig er mikilvægt að þetta verði gert með virðingu fyrir því stafræna öryggi sem okkur hefur tekist að skapa á Norðurlöndum. Ef upplýsingar eru olía Norðurlanda þá er traust gull Norðurlanda,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norrænu og baltnesku ráðherrarnir leggja áherslu á þróun og víðtækari notkun gervigreindar í þjónustu við mannfólkið. Það verði gert með því að:

  • Bæta tækifæri til færniþróunar til þess að yfirvöld, fyrirtæki og stofnanir geti nýtt sér gervigreind í auknum mæli.
  • Auka aðgang að upplýsingum til þess að nýta megi gervigreind í bættri þjónustu við íbúa landanna.
  • Taka saman siðferðislegar og gagnsæjar leiðbeiningar, staðla, viðmið og meginreglur um hvenær og hvernig eigi að nota gervigreindarforrit.
  • Beita sér fyrir alþjóðlegum stöðlum fyrir innviði, vélbúnað, forrit og upplýsingar í þeim tilgangi að tryggja rekstrarsamhæfi, heildarvirkni, öryggi, traust, notagildi og hreyfanleika.

Ráðherrarnir leggja áherslu á tækifæri sem leynast í því að löndin nýti gervigreind í atvinnulífinu og opinberum geira. Útbreidd notkun gervigreindar getur tvöfaldað hagvöxt miðað við að hún sé notuð í minni mæli.

„Gervigreind mun valda straumhvörfum í atvinnulífinu og opinberum geira. Með því að beita henni rétt er hægt að auka lífsgæði íbúa á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Eigi löndin að taka sér stöðu í þessum efnum verðum við að snúa bökum saman. Ég fagna því að við höfum náð samkomulagi um samstarf landanna,“ segir Peter Eriksson, ráðherra stafrænnar væðingar í Svíþjóð.