Norðurlöndin hafni félagslegum undirboðum í siglingum

14.09.18 | Fréttir
Færge i bugt
Ljósmyndari
Steinar Engeland/Unsplash
Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin mælir með því við Norrænu ráðherranefndina að hún vinni að þróun og viðhaldi á góðum starfskjörum sjómanna á Norðurlöndum.

Flokkahópur jafnaðarmanna kynnti þingmannatillöguna sem nefndin stendur einhuga að baki. Stein Erik Lauvås sem lagði fram tillöguna er ánægður með að nefndin skuli standa einhuga að baki henni.

Þetta eru afar mikilvæg skilaboð frá einhuga nefnd sem sýna að við munum vinna gegn félagslegu undirboði á Norðurlöndum, líka í siglingum.

Stein Erik Lauvås, skýrslugjafi í samgöngumálum hagvaxtar- og þróunarnefndinni

Þetta byrjaði í Noregi

Ástæðan fyrir því að flokkahópur jafnaðarmanna hefur áhyggjur af þessu málefni er tillaga nefndar sem ríkisstjórn Noregs hefur skipað. Sú nefnd leggur til að útgerðarfélaginu Colour Line verði heimilt að skrá sig á alþjóðlegu norsku skipaskrána (NIS). Það hefur í för með sér að útgerðarfélagið getur ráðið erlenda sjómenn á lægri launum en greiða þyrfti sjómönnum sem ráðnir eru á norskum kjörum. Þá geta 700 norskir sjómenn misst vinnuna.

Norðurlandaráð mælir með því við Norrænu ráðherranefndina að hún vinni afdráttarlaust gegn félagslegu undirboði, til dæmis í siglingum, og að uppbyggingu innan ramma regluverks sem verndar norræna líkanið um laun og starfskjör.

Útdráttur úr samþykkt nefndarinnar

Afleiðingar á Norðurlöndum

Danska útgerðarfyrirtækið DFDS hefur lýst því yfir að þar verði hugleitt að flytja skráningu flotans undir hentifána ef Color Line verði heimilt að að vera skráð á alþjóðlegu norsku skipaskránni. Fulltrúar DFDS hafa bent á það í norskum miðlum að skráning Colour Line undir hentifána muni veita samkeppnisforskot sem DFDS geti aðeins mætt með því að fara sömu leið. Þar með eiga mörg þúsund norrænir sjómenn á hættu að missa vinnuna. Þá hefur norska útgerðarfélagið Fjordline lýst því yfir að skráning undir hentifána myndi hafa áhrif á samkeppnisstöðu þess.

Finnski fulltrúinn í hagvaxtar- og þróunarnefndinni, Ville Skinnari, óttast að skráning skipa undir hentifána í Noregi muni breiðast út og hafa áhrif á ferjusiglingar á Eystrasalti.

Þessi þróun vekur óróa. Við viljum vinna gegn félagslegu undirboði og fyrir réttlátum starfskjörum allra norrænna starfsmanna. Ef þetta tekst ekki mun það eyðileggja norræna velferðarlíkanið og samkeppnin verður ójöfn. Við þurfum skýrar leikreglur sem gilda fyrir alla á norrænum vinnumarkaði.

Ville Skinnari

Samþykkt nefndarinnar felur í sér að tillagan fer áfram til meðferðar á þingi Norðurlandaráðs í lok október.