Norrænt verkefni um þróun á lífrænu flugvélaeldsneyti

23.02.15 | Fréttir
Fly
Ljósmyndari
Eivind Sætre
Norræna ráðherranefndin ýtir úr vör verkefni sem ætlað er að kortleggja umhverfisáhrif og viðskiptatækifæri tengd notkun á lífrænu flugvélaeldsneyti. Um tvö prósent koltvísýringslosunar á heimsvísu stafa af flugumferð og það hlutfall fer vaxandi. Þetta er í sláandi mótsögn við þróun í öðrum samgöngugeirum, þar sem lögð hefur verið áhersla á að draga úr losun koltvísýrings.

Eins og staðan er í dag eru fáar leiðir í boði til að að draga úr umhverfisáhrifum af völdum flugumferðar, samanborið við áhrif af völdum bílaumferðar eða siglinga. Flugumferð er einn helsti valdurinn að losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Enn er það aðeins fjarlægur draumur að knýja flugvélar með raf- eða sólarorku, en lífrænt eldsneyti kann að vera raunhæfur kostur.

Rasmus Helveg Petersen, loftslags-, orku- og húsnæðismálaráðherra Danmerkur, lagði það til við starfssystkin sín á Norðurlöndum síðasta haust að formennska Dana í Norrænu ráðherranefndinni 2015 stæði fyrir því að kanna möguleika Norðurlanda til að nota háþróað lífrænt eldsneyti á flugvélar. „Ég vona að þetta starf leiði í ljós hvort notkun lífræns flugvélaeldsneytis getur stuðlað að grænum hagvexti. Það mun þó krefjast framlags frá fleiri löndum en Danmörku. Möguleikarnir eru mun meiri ef Norðurlöndin leggjast öll á eitt,“ segir Rasmus Helveg Petersen. Niðurstöður starfsins verða kynntar á ráðstefnu árið 2016. Þróun lífræns flugvélaeldsneytis kann að hafa ýmis viðskiptatækifæri í för með sér, auk ávinnings í loftslagsmálunum.

Grænar flugsamgöngur

Á allsherjarþingi sínu 2016 mun Alþjóðaflugmálastofnunin, stofnun SÞ um flugsamgöngur, ræða pólitísk stjórntæki sem geta hugsanlega stuðlað að minni losun koltvísýrings í geiranum. Danski loftslagsmálaráðherrann telur þó að mörg úrlausnarefni séu framundan, eigi samkomulag að nást um nýjar aðgerðir á árinu 2016.

„Vonandi mun norræna verkefnið færa okkur aukna þekkingu á lífrænu flugvélaeldsneyti og stuðla um leið að því að við náum settum markmiðum í loftslagsmálum. Það þarf að taka upp umhverfisvænni siði í flugsamgöngugeiranum,“ segir Rasmus Helveg Petersen að lokum.Á tímabilinu 2015–2016 lýkur átaksverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar um grænan hagvöxt, sem norrænu forsætisráðherrarnir hleyptu af stokkunum 2011. Eitt undirverkefna þess gengur út á að kanna möguleikana á að þróa hreinsistöðvar fyrir lífeldsneyti á norrænum vettvangi. Verkefnið verður hluti af framlagi ráðherranefndarinnar í aðdraganda COP21-loftslagsráðstefnunnar, sjá nánar á www.norden.org/greengrowth.