Nýr forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi

05.02.20 | Fréttir
Anne Mette Gangsøy, NAPA
Photographer
privat/norden.org
Anne Mette Gangsøy frá Noregi verður nýr forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi. Hún er stórhuga um að efla sjálfbær menningarsamskipti milli Grænlands og hinna Norðurlandanna.

Gangsøy tekur við stjórn norrænu menningarstofnunarinnar í Nuuk á tíma þegar vinnan við að gera að veruleika framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og mest samþætta svæði heims árið 2030 er hafin. Í tengslum við flutning sinn frá Noregi til Grænlands leggur Gangsøy áherslu á hlutverk menningar og listar þegar kemur að því að skilja ólík sjónarmið og hvata fólks.

„Ég hlakka mjög til að kynnast Grænlandi og fá tækifæri til að vinna með grænlenska menningu út frá norrænu sjónarhorni. Sjálfbær þróun krefst samstarfs og menningin sameinar fólk á jöfnum forsendum.“
 

Sjálfbær þróun krefst samstarfs og menningin sameinar fólk á jöfnum forsendum.

Anne Mette Gangsøy

Norræna stofnunin á Grænlandi (NAPA) er mikils metin innan grænlensks og norræns menningarlífs og með styrkjaáætlun og verkefnum á borð við Norrænu menningarhátíðina í Nuuk og sýninguna Ískristalsprinsessuna stuðlar hún að öflugri menningarstarfsemi sem margir taka þátt í.


„Þegar fólk með mismunandi bakgrunn, tungumál og menningu kemur saman verða til ný tækifæri. Það metnaðarfulla menningarsamstarf sem á sér stað á milli norrænu landanna getur þjappað okkur saman með sameiginlegum markmiðum og metnaði,“ heldur Gangsøy áfram.

NAPA stuðlar einnig að því að börn og ungmenni séu í brennidepli í norrænu menningarsamstarfi en það er nokkuð sem Anne Mette Gangsøy hefur fengist við áður með því að þróa skapandi fundarstaði. Hún hefur mikla reynslu af stjórnunar-, menningar- og samskiptastörfum.

Gangsøy tekur til starfa 1. maí 2020 en áður starfaði hún sem forstöðumaður fjölmenningar- og fræðslusetursins Notodden í Noregi og hefur einnig stýrt menningarstofnuninni Gullbring Kulturanlegg ásamt því að vinna hjá NRK í mörg ár, meðal annars við leikið norrænt sjónvarpsefni. 

Um Norrænu stofnunina á Grænlandi

Norræna stofnunin á Grænlandi, NAPA, er stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og hefur það hlutverk að kynna og efla norræna menningu á Grænlandi og grænlenska menningu annars staðar á Norðurlöndum. Þessu menningarsamstarfi er ætlað að efla samheldni og skilning á milli Norðurlandabúa og þar með að stuðla að sjálfbærum norrænum samfélögum. NAPA leikur einnig mikilvægt hlutverk í norrænu samstarfi á Norðurskautssvæðinu.

Contact information