Nýr samstarfsráðherra í Danmörku leggur áherslu á Framtíðarsýn okkar 2030

22.12.22 | Fréttir
Louise Schack Elholm
Photographer
Steen Brogaard
Louise Schack Elholm hefur verið útnefnd samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku í hinni nýju ríkisstjórn þar í landi sem samanstendur af Socialdemokratiet, Venstre og Moderaterne.

Louise Schack Elholm er nýr samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku. Hún hlakkar til að takast á við verkefnið sem hún telur mikilvægt af mörgum ástæðum:

„Það er mikilvægt að missa ekki sjónar á sameiginlegu markmiði okkar um að hér verði samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi. Í því sambandi skiptir stöðug vinna okkur að því að ryðja úr vegi stjórnsýsluhindrunum á Norðurlöndum höfuðmáli. Ég ætla að tryggja að almenningur á Norðurlöndum geti unnið og sótt nám alls staðar á Norðurlöndum án fyrirstöðu. Samnorrænn markaður fyrir nám og atvinnu skilar sér í hagvexti og framþróun og eykur alþjóðlega samkeppnishæfni svæðisins. Ég hlakka jafnframt til þess að vinna náið með grænlenskum og færeyskum kollegum mínum í ríkjasambandinu að þessum málum innan Norrænu ráðherranefndarinnar,“ segir Louise Schack Elholm.

Það er mikilvægt að missa ekki sjónar á sameiginlegu markmiði okkar um að hér verði samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi.

Louise Schack Elholm, samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku

Þess vegna skiptir norrænt samstarf máli

Hún bendir á að norrænt samstarf sé mikilvægt af mörgum ástæðum, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í öryggismálum og nú í kjölfarið á heimsfaraldri sem fæstir höfðu búist við. Hún heldur áfram:

„Við verðum alls staðar vör við innrás Rússa í Úkraínu og staðan í öryggismálum hefur breyst. Náið samstarf Norðurlanda er gríðarlega mikilvægt við þessar aðstæður. COVID-19 kallaði á aukið norrænt samstarf í viðbúnaðarmálum. Staðan sem nú er uppi, með stríðsátökum í Evrópu, kallar á áframhaldandi áherslu á þetta samstarf.“

Formennskuáætlun Íslands – Afl til friðar

Senn líður að áramótum og þá munu Íslendingar taka við formennskukeflinu.

„Ég hlakka til að vinna með Íslandi og fannst forvitnilegt að lesa formennskuáætlunina, „Afl til friðar“. Ég er alveg sammála um að friður sé forsenda þess að viðhalda sameiginlegum norrænum gildum okkar og velferð og hlakka til að taka þátt í alþjóðlegri friðarráðstefnu formennskunnar í Reykjavík,“ segir Louise Schack Elholm.


 

Friður er forsenda þess að viðhalda sameiginlegum norrænum gildum okkar og velferð

Louise Schack Elholm, samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku

Formennskuembætti með norræna skírskotun

Louse Schack Elholm kemur úr flokknum Venstre. Hún hefur meðal annars gegnt formennsku fyrir ýmsa pólitíska málaflokka sem einnig tengjast samstarfi þvert á norræn landamæri. Þar má nefna málefni barna og fjölskyldna, jafnréttismál, grunnskólamál, skattamál og húsnæðismál. Louise Schack Elholm tekur við af Flemming Møller Mortensen sem samstarfsráðherra Norðurlanda.