Nýtt hús NordGen dreifir fræjum og þekkingu í þágu loftslagsins

03.04.22 | Fréttir
Fyra ministrar klipper ett invigningssnöre
Ljósmyndari
Jonatan Jacobson
Í dag, 4. apríl, vígðu norrænir ráðherrar nýtt norrænt þekkingarsetur um erfðaauðlindir í Alnarp í nágrenni Malmö í Svíþjóð. Í nýjum húsakynnum NordGen verður bæði fræjum og þekkingu miðlað í þeim tilgangi að aðlaga norrænan landbúnað að loftslagsbreytingum og auka samkeppnishæfni hans.

Norræna erfðaauðlindastofnunin, NordGen, er þekkingarsetur um erfðaauðlindir og sameiginlegur genabanki norrænu landanna. NordGen flutti nýlega starfsemi sína í nýja loftslagsvottaða byggingu sem var formlega vígð á mánudaginn.

Ráðherrar og finnafé

Anna-Caren Sätherberg, landsbyggðaráðherra Svíþjóðar klippti á borða sem var spunninn úr af finnafé sem er einn af 140 kynstofnum landdýra á Norðurlöndum.

Sandra Borch, landbúnaðar- og matvælaráðherra Noregs, var einnig viðstödd, Thomas Blomqvist, norræni samstarfsráðherra Finnlands, og Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Ég er ánægð með að fá að taka þátt í að vígja nýtt húsnæði Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar sem á að veita þessari einstöku vinnu að sjálfbærni Norðurlanda bestu mögulegu skilyrði,“ segir Paula Lehtomäki.

Líffræðileg fjölbreytni skiptir sköpum

Í nýju setri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar verður lögð aukin áhersla á þátttöku í rannsóknarsamstarfi við háskóla og einkafyrirtæki til þess að stuðla að því að tryggja framtíð landbúnaðar á Norðurlöndum.

„Það skiptir sköpum að varðveita líffræðilega fjölbreytni og nýta hana eins vel og kostur er til að geta framleitt matvæli nú og í framtíðinni,“ segir Lise Lykke Steffensen, forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar.

Þróa kartöflur framtíðarinnar

Gestum var boðið upp á skoðunarferð um húsnæði Norrænu erfiðauðlindastofnunarinnar, meðal annars frærannsóknastofu og „mikilvægasta herbergi Norðurlanda“, sem geymir norræna fræsafnið, frystigeymslu með rúmlega 33.000 fræsýnum.

Norræna erfðaauðlindastofnunin er jafnframt skrifstofa norræna samstarfs opinberra aðila og einkaaðila um forræktun „preebreeding“ sem er dýrt og tímafrekt fyrsta stig þróunar nýrra tegunda.

Í undirverkefni þess eru kortlagðir eiginleikar 300 mismunandi karföfluafbrigða. Þekkingin verður nýtt til að þróa norræn kartöfluafbrigði framtíðarinnar sem geta betur varist sjúkdómum sem verða algengari þegar loftslagið breytist.

Hér er lykillinn að loftslagsþolnum tegundum

„Loftslagsbreytingarnar hafa áhrif á okkur öll og það er afar mikilvægt að Norðurlöndin vinni saman að þeim miklu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Erfðaauðlindirnar eru lykillinn að því að þróa harðgerar tegundir í framtíðinni og þá þurfum við að auka miðlun þekkingar milli einkaaðila og opinberra aðila,“ segir Lise Lykke Steffensen.

Villtir ættingjar kortlagðir

Annað dæmi er norræna samstarfsverkefnið „Villtir ættingar ræktaðra tegunda“ sem staðið hefur í mörg ár. Þar eru mikilvægustu ættingjar ræktaðra tegunda kortlagðar og mikilvægustu fræjunum safnað til varðveislu hjá Norrænu erfðaauðlindastofnuninni.

Þessir villtu ættingjar geta borið erfðafræðilega eiginleika sem eru mikilvægir fyrir þróun landbúnaðartegunda sem ráða betur við þurrka, stórrigningar og ágang skordýra og sjúkdóma – en sá vandi verður algengari með loftslagsbreytingum..

Fjallakýrin varðveitt og skógurinn efldur

Gestirnir heimsóttu einnig gróðurhús Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar og skoðuðu nokkrar plöntutegundir sem notaðar verða til fræmyndunar í ár.

Í gróðurhúsinu var einnig starfsfólk frá húsdýradeildum Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar sem greindi frá verkefninu 3MC en markmiðið þess er að auka þekkingu á fjallakúakynstofnum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sem ekki standa vel.

 

Skógadeild Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar sagði frá mikilvægi erfðafræðilegrar fjölbreytni fyrir þróun viðnámsþolinna skóga.