Ola Elvestuen nýr formaður norrænu sjálfbærninefndarinnar

02.11.22 | Fréttir
Ola Elvestuen
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Ola Elvestuen, fyrrverandi umhverfisráðherra Noregs, verður formaður norrænu sjálfbærninefndarinnar. Markmið hans er að Norðurlönd sýni að aðgerðir fylgi orðum í loftslags- og umhverfismálum.

Sjálfbærninefndin kaus nýjan formann á fundi sínum á þingi Norðurlandaráðs.

Ola Elvestuen situr á norska þinginu fyrir frjálslynda flokkinn Venstre og starfar fyrir flokkahóp miðjumanna í norrænu þingsamstarfi.

Hann tekur við formennsku í norrænu sjálfbærninefndinni af Magnusi Ek.

„Við ætlum að uppfylla Parísarsamkomulagið“

„Ég vil stuðla að betra samstarfi til að ná loftslags- og umhverfismarkmiðum okkar. Við ætlum að uppfylla Parísarsamkomulagið og hafa meiri náttúru árið 2030“, segir Ola Elvestuen.

„Í raun erum við öll sammála um markmiðin. Það sem þarf að leysa er að fara frá yfirlýsingum sem sýna vilja yfir í ákvarðanir sem hafa raunverulegar afleiðingar.

Máttur góðs fordæmis

Hann nefnir samning Sameinuðu þjóðanna um plastúrgang sem dæmi um að Norðurlönd geti haft lykiláhrif í alþjóðlegu samhengi. Einnig þarf norrænt samstarf að leggja áherslu á Eystrasaltið og náttúrusvæði sem ná yfir landamæri.

Norðurlandaráð leikur einnig mikilvægt hlutverk í því að sýna það sem vel er gert í umhverfis- og loftslagsmálum, t.d. í gegnum umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Ungt fólk missir vonina

Ola Elvestuen hefur áhyggjur af því að mörg börn og ungmenni telja ekki ekki lengur að hægt sé að stöðva loftslagsvandann.

„Ábyrgð okkar er mikil þegar kemur að því að sýna að hægt sé að uppfylla 1,5 gráðu markmið Parísarsamkomulagsins“