Ólíkar reglur hamla vöruviðskiptum á Norðurlöndum – en það eru til lausnir

21.09.20 | Fréttir
Tull och moms-rapport 2020.

Tull och moms

Photographer
Magnus Fröderberg
Hindranir standa enn í dag í vegi fyrir frjálsum inn- og útflutningi á vörum innan Norðurlanda. Oftast er vandinn fólginn í ólíkum tolla- og skattareglum þegar vörur eru fluttar milli norræns aðildarríkis ESB og ríkis sem ekki er í ESB.

Þetta kemur fram í skýrslu sem gerð var að tilstuðlan Stjórnsýsluhindranaráðs Norrænu ráðherranefndarinnar. Í skýrslunni Varuhandel på lika villkor? Tull och moms i Norden ur ett gränshinderperspektiv (Vöruviðskipti með sömu kjörum? Tollar og virðisaukaskattur á Norðurlöndum með tilliti til stjórnsýsluhindrana) er fjallað um tiltekin vandamál í tengslum við frjálsa vöruflutninga og hvernig má leysa þau.

Niðurstaða skýrslunnar er að tollar og skattar valdi tiltölulega fáum vandamálum í vöruflutningum milli Norðurlanda. Hins vegar er erfitt að leysa mörg þeirra vandamála sem til staðar eru vegna tolla- og skattareglna eða vegna þess að ríkisstjórnir setja þessi vandamál ekki í forgang vegna takmarkaðra efnahagslegra áhrifa þeirra.

Skýrslan sýnir að ósamræmdar reglur hafa mikil áhrif á þá sem á annað borð verða fyrir áhrifum. Það hefur bæði í för með sér aukna stjórnsýslu og aukinn kostnað miðað við aðstæður þar sem landamæraeftirlit er ekki haft með vöruflutningum.

Þrjú dæmi skýra vandamálið

Í skýrslunni eru tekin þrjú skálduð dæmi til að skýra vandamálið. Dæmin eru af viðskiptum milli Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Danmerkur, sérstaklega á landamærasvæðum, bæði af fyrirtækjum sem eiga í vöruviðskiptum yfir landamæri og fyrirtækjum sem eiga í rafrænum viðskiptum.

Það sem þau eiga öll sameiginlegt er að þau standa sérstaklega frammi fyrir vandamálum í tengslum tolla og skatta við landamæri milli aðildarríkis ESB og ríkis sem ekki er í ESB. Mismunandi reglur og ákvarðanir hafa í för með sér kostnað sem oft hefur meiri áhrif á minni fyrirtæki.

Skýrslan leggur einnig áherslu á lausnir

„Skýrslan sýnir að frjálsir vöruflutningar ganga ekki snurðulaust fyrir sig á Norðurlöndum. Framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar er að Norðurlönd verði orðin sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 og þess vegna verðum við að vinna að því að fjarlægja þær hindranir sem enn eru til staðar í inn- og útflutningi vara. Ég vona að skýrslan geti stuðlað að uppbyggilegri umræðu um lausnir sem geta létt undir með daglegri starfsemi fyrirtækja, sérstaklega þeim minni sem starfa á landamærasvæðum,“ segir Vibeke Hammer Madsen, fulltrúi Noregs í Stjórnsýsluhindranaráðinu.

Í skýrslunni er lögð áhersla á nokkur svið sem einkum valda vandamálum en sem hugsanlega má leysa til að greiða fyrir frjálsum vöruflutningum. Þar má nefna virðisaukaskatt á innfluttar vörur fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem ekki eru á virðisaukaskattskrá og einnig tollafgreiðslu á tollstöðvum.