Stjórnsýsluhindranaráðið samþykkir forgangssvið fyrir árið 2020

23.01.20 | Fréttir
Gränshinderrådets kickoff i Köpenhamn 2020.

Gränshinderrådets kickoff 2020.

Ljósmyndari
Matts Lindqvist

Stjórnsýsluhindranaráðið kom saman á fyrsta fundi ársins í Kaupmannahöfn 20.-21. janúar.

Samnorrænt rafrænt auðkenni, viðurkenning starfsréttinda, samræmdar reglur í byggingariðnaði, millilandasamstarf um samgöngumál og dreifitálmun. Þetta eru helstu málefni sem Stjórnsýsluhindranaráðið leggur áherslu á í starfi sínu árið 2020.

Stjórnsýsluhindranaráðið samþykkti stefnumörkun sína fyrir árið 2020 á árlegum upphafsfundi sínum í Kaupmannahöfn.

Á þessu ári hyggst ráðið auka aðgerðir gegn stjórnsýsluhindrunum, það er að segja hindrunum sem torvelda frjálsa för milli Norðurlandanna. Annars vegar leggur Stjórnsýsluhindranaráðið áherslu á fá útvalin yfirgripsmikil svið og hins vegar er stefnt að nánara sambandi við ráðuneyti landanna.

Markmið ráðsins er að ryðja úr vegi 8-12 stjórnsýsluhindrunum á ári. Árið 2019 voru átta hindranir afgreiddar.

„Nýtt skeið er nú að hefjast hjá Stjórnsýsluhindranaráðinu þar sem meiri áhersla verður lögð að gegnumgangandi og yfirgripsmikil málefni. Auk þess stefnum við að því að halda fundi með þeim ráðherranefndum sem málefnin varða. Þetta er alveg nýr þáttur í starfi okkar og leið til þess að komast nær ráðherrunum,“ segir Bertil Haarder, þingmaður á danska þinginu og í Norðurlandaráði og formaður Stjórnsýsluhindranaráðsin árið 2020.

Nánara samband við ráðherra

Sambandið við ráðherra er Stjórnsýsluhindranaráðinu mikilvægt vegna þess að það eru viðeigandi ráðuneyti sem gegna því hlutverki að ryðja stjórnsýsluhindrununum úr vegi þegar ráðið hefur greint þær.

Mogens Jensen, samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku, sem tók þátt í upphafsfundinum studdi hugmyndina um nánara samstarf við ráðherrana og lofaði að taka tillöguna upp á næsta fundi norrænu samstarfsráðherranna.

Til mikils gagn fyrir íbúa

Forgangsmálefni ársins snúast um tiltekin málefni sem skipta einstaka íbúa Norðurlanda miklu máli. Þetta á ekki síst við um samnorrænt rafrænt auðkenni en markmiðið er að hægt verði að nota rafrænt auðkenni heimalandsins um öll Norðurlönd.

Bertil Haarder leggur mikla áherslu á rafrænu auðkennin en einnig á annað málefni sem hann hefur unnið að lengi en það er dreifitálmun. Hann lofar að halda áfram að vinna að því að norrænu almannaþjónustustöðvarnar opni á fleiri sjónvarpsþætti fyrir íbúa annarra Norðurlanda.

„Við viljum vinna að því að stóru almannaþjónustustöðvarnar loki fyrir eins fáa þætti og hægt er. Sum lönd loka miklu minna á efni en önnur og markmið okkar er einfalt: að öll löndin loki eins lítið og það land sem lokar minnst,“ segir Bertil Haarder.

Nýja sýnin mótar vinnuna

Annað nýmæli í ár er að Norræna ráðherranefndin hefur samþykkt nýja framtíðarsýn þar sem meðal annars segir að Norðurlöndin eigi að vera samþættasta svæði heims árið 2030. Þetta hefur áhrif á starf stjórnsýsluhindranaráðsins.

„Framtíðarsýnin mótar allt starf okkar og er einnig ástæða þess að við aukum metnaðinn. Við erum jú samþætt á mörgum sviðum. Ef við eigum að vera það þá þarf að koma til pólitískt átak, pólitísk forysta og á það ætlum við í Stjórnsýsluhindranaráðinun að þrýsta,“ segir Bertil Haarder.

Sviðin sem eru í forgangi í ár, stafræn væðing (rafræn auðkenni), samgöngur, byggingageirinn og viðurkenning starfsréttinda í öðrum löndum, skipta öll miklu máli í vinnunni við að ná markmiðum hinnar nýju framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar.

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Stjórnsýsluhindranaráðið hóf störf árið 2014.

Markmið ráðsins er að ryðja úr vegi tilteknum hindrunum sem Norðurlandabúar finna fyrir frá degi til dags, sérstaklega þau sem ferðast milli landa vegna vinnu, þau sem flytja til annars norræns ríkis vegna náms eða starfa eða fyrirtæki sem vilja starfa annars staðar á Norðurlöndum.