Aukið starfsumboð Stjórnsýsluhindranaráðsins gaf góða raun

31.10.18 | Fréttir
Margot Wallström redogör för Gränshinderrådets arbete under 2018.

Margot Wallström redogör för Gränshinderrådets arbete under 2018.

Ljósmyndari
Sara Johannessen

Sá möguleiki að nýta öll Norðurlöndin sem atvinnu-, menntunar- og búsetusvæði er helsti kosturinn við norrænt samstarf, að mati íbúa landanna.

Starf Stjórnsýsluhindranaráðsins felst í því að þrýsta á ríkisstjórnir landanna um að afnema hindranir sem torvelda frjálsa för. Slíkar hindranir geta myndast þegar yfirvöld túlka reglur með ólíkum hætti eða þegar lög landanna stangast á.

Áhersla lögð á atvinnulíf og vinnumál

Norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu að auka starfsumboð Stjórnsýsluhindranaráðsins fyrir árið 2018. Fulltrúar landanna í ráðinu fengu meðal annars aukið svigrúm til að kalla til fundar viðeigandi ráðherra, stjórnvöld og ráðuneyti sem geta stuðlað að afnámi stjórnsýsluhindrana.

Í ár hafa hindranir á vettvangi atvinnulífsins og hindranir sem snúa að borgurum sem starfa í öðru landi en búsetulandi sínu notið forgangs í starfi Stjórnsýsluhindranaráðsins. Stjórnsýsluhindranaráðið hefur lagt áherslu á að afnema eins margar og unnt er af þeim hindrunum sem nutu forgangs á tímabili síðasta starfsumboðs. Það hefur borið þann árangur að fjórtán hindranir hafa verið afgreiddar; þar af voru 13 afnumdar en ein var afskrifuð sem óleysanleg.

Stjórnsýsluhindrun afnumin fyrir fiskeldi

Meðal annars hafa þrjár hindranir sem tengjast atvinnuleysistryggingum verið leystar með lagabreytingum í Svíþjóð.

Eva Tarselius Hallgren frá Svíþjóð hefur verið formaður ráðsins á þessu ári.

Auk umbóta sem orðið hafa í tengslum við atvinnuleysistryggingar er hún sérstaklega ánægð með að ríkisstjórnirnar hafi afnumið hindrun sem skiptir sköpum fyrir sænskt fiskeldi með því að greiða fyrir innflutningi á norskum laxaseiðum til Svíþjóðar.

„Hindranir tengdar atvinnulífinu njóta sérstaks forgangs innan hins nýja starfsumboðs okkar og því hefur skipt miklu að geta lagt áherslu á þetta mál,“ segir Eva Tarselius Hallgren.

Mikilvægt fyrir almenning

Stjórnsýsluhindranaráðið hefur getað nýtt aukið umboð sitt til að þrýsta enn frekar á stjórnvöld og eiga nánara samstarf við ráðherra og samstarfsnet.

Margot Wallström, formaður norrænu samstarfsráðherranna í ár, telur hið aukna umboð hafa skilað árangri.

„Já, í ár hafa fleiri hindranir verið afnumdar en nokkru sinni fyrr. Það hefur mikla þýðingu fyrir einstaklinga í norrænu löndunum að vel takist til á þessu sviði því það auðveldar almenningi að búa og starfa í öðru norrænu landi,“ sagði Margot Wallström.

Þær 13 stjórnsýsluhindranir sem hafa verið afnumdar á árinu:

1. Hægt að skrá sig í atvinnuleysistryggingasjóð í Svíþjóð þegar 64ra ára aldri er náð.

2. Hingað til hefur fólk átt á hættu að missa rétt sinn til tekjutengdra bóta ef það hefur sótt um aðild að röngum atvinnuleysistryggingasjóði í Svíþjóð.

3. Fyrri krafa um samfellda atvinnuleysistryggingu í fleiri en einu landi, til að eiga ekki á hættu skerðingu á atvinnuleysisbótum, hefur verið afnumin með breytingum á sænskum lögum og reglugerðum.

4. Hreyfanlegir matsölustaðir hafa ekki mátt vera fyrsti komustaður dýraafurða sem fluttar eru inn til Finnlands.

5. Viðurkenning á rétti samkynja foreldra. Vandamálið hefur verið til staðar þegar fólk flytur til Finnlands og Svíþjóðar, en hefur enn ekki verið leyst af hálfu Svíþjóðar.

6. Krafa um að skipta út erlendum ökuskírteinum í Danmörku hefur verið afnumin.

7. Finnsk ungmenni geta nú sótt starfsnám í öðru norrænu ríki.

8. Bætur vegna ferðakostnaðar sjúklinga sem ferðast milli Noregs, Finnlands og Svíþjóðar (stjórnsýsluhindrunin er þó ekki leyst af hálfu Svíþjóðar)       

9. Réttur til leiðsöguhunds á ferðalögum.  

10. Menntaskólanám í Noregi er nú aðgengilegt öllum norrænum ungmennum, eftir afnám kröfu um að umsækjendur yrðu að vera skráðir í norsku þjóðskrána á umsóknartíma. 

11. Innflutningur á norskum laxaseiðum til Svíþjóðar er nú leyfður.

12. Krafa um ferðaskilríki í flugferðum milli Íslands og annarra Norðurlanda hefur verið afnumin.

13. Réttur til almannatrygginga fyrir borgara þriðju landa sem starfa við rannsóknastöðina European Spallation Source (ESS) en búa í Danmörku.