Ráðherrarnir vilja norræna samstarfsáætlun í ferðamálum

16.05.17 | Fréttir
Näringsministrar i Bergen
Photographer
Matts Lindqvist
Atvinnuvegaráðherrar Norðurlanda vilja auka samstarf á sviði ferðamála. Á ráðherrafundi í Björgvin í Noregi 16. maí sl. var ákveðið að ráðast í gerð norrænnar samstarfsáætlunar á sviði ferðamála. Meðal annarra efna sem ráðherrarnir ræddu voru Brexit, hnattvæðingin og fríverslun.

Atvinnuvegaráðherrarnir vilja að samstarfsáætlunin gefi vísbendingar um hvernig best sé að haga norrænu samstarfi í framtíðinni, hvaða málaflokkar henti nánari samstarfi og hvaða verkefni séu best leyst í löndunum sjálfum. Sameiginleg markaðssetning Norðurlanda á fjarlægum mörkuðum, samstarf um nýsköpun og stafræna tækni auk samstarfs um tölfræði og rannsóknir voru á meðal hugsanlegra samstarfssviða sem rædd voru.

„Ferðamennska er í örum vexti um allan heim, einnig á Norðurlöndum og við það skapast mikil sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna í löndunum. Sumir málaflokkar henta vel til samstarfs um að efla samkeppnisfærni landanna og ná sem bestum árangri. Fjölgun ferðamanna á Norðurlöndum skapar fleiri störf og grundvöll fyrir jákvæða þróun í byggðum okkar,“ segir Monica Mæland, atvinnuvegaráðherra Noregs og formaður ráðherranefndarinnar um atvinnustefnu á árinu 2017.

Ferðamennska er í örum vexti um allan heim, einnig á Norðurlöndum og við það skapast mikil sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna í löndunum. Sumir málaflokkar henta vel til samstarfs um að efla samkeppnisfærni landanna og ná sem bestum árangri.

Á fundinum í Björgvin bentu atvinnuvegaráðherrarnir á að aukin ferðamennska getur einnig skaðað umhverfið og lögðu mikla áherslu á að huga beri að sjálfbærni í þróun atvinnugreinarinnar.

Ákvörðunin um að semja samstarfsáætlun á sviði ferðamála kemur í framhaldi af fundi atvinnuvegaráðherranna í nóvember 2016 þar sem ákveðið var að setja norrænt samstarf um ferðamál í forgang.

Brexit kom til tals

Á fundi ráðherranna í Björgvin var einnig rætt um Brexit og viðfangsefni sem Norðurlönd og Evrópa standa frammi fyrir vegna aukinnar verndarstefnu og andstöðu við hnattvæðingu og fríverslunarsamninga. Norðurlönd hafa löngum staðið vörð um fríverslun og alþjóðasamstarf og voru ráðherrarnir á einu máli um að standa beri fast á þeim gildum, einnig í framhaldinu. Þá voru þeir sammála um mikilvægi þess að eiga góð samskipti við Bretland, einnig eftir að Bretar yfirgefa ESB.

Ráðherrarnir undirstrikuðu að alþjóðlegt samstarf væri lífsnauðsyn fámennum þjóðum eins og þeim norrænu.

„Hnattvæðingin, harðnandi alþjóðasamkeppni og tilhneiging til aukinnar verndarstefnu í viðskiptum gera auknar kröfur um að norræn fyrirtæki endurnýi sig hraðar, auki nýsköpun og skilvirkni og hafi jafnframt aðgang að alþjóðlegum mörkuðum,“ sagði Monica Mæland.

Ráðherrar munu beita sér fyrir stafrænni tækni

Þriðja mikilvæga málefnið sem ráðherrarnir ræddu í Björgvin var stafræn tækni og hröð aðlögunarhæfni fyrirtækja að breytingum, meðal annars í ljósi grænna umskipta og alþjóðlegrar samkeppni. Málefni þessi eru í forgangi í norrænu samstarfi.

Ráðherrarnir nefndu meðal annars stóra ráðstefnu um stafræna tækni sem var haldin í Ósló í apríl sl. Þar undirrituðu ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja yfirlýsingu um nánara samstarf um málefni stafrænnar tækni.

Atvinnuvegaráðherrarnir lögðu áherslu á að stafræn tækni verði áfram í forgangi í nýrri norrænni samstarfsáætlun um fyrirtækja- og nýsköpunarstefnu fyrir tímabilið 2018–2021 sem verður samþykkt síðar á árinu. Þrátt fyrir að staða Norðurlanda á sviði stafrænnar tækni sé góð í alþjóðlegum samanburði, töldu ráðherrarnir þörf á frekari aðgerðum og fjárfestingum til að viðhalda leiðandi stöðu svæðisins, einnig til framtíðar.

Contact information