Ríkisendurskoðun Danmerkur: Ársreikningur Norrænu ráðherranefndarinnar réttur – með fyrirvara

19.09.22 | Fréttir
porten till Nordens hus
Photographer
norden.org
Norræna ráðherranefndin hefur gert úrbætur varðandi fjármála- og verkefnastjórn en áfram voru vandamál á árinu 2021 sem tengdust meðal annars innri fjármálastjórn. Þetta kemur fram í greinargerð Ríkisendurskoðunar Danmerkur um ársreikninginn.

Ríkisendurskoðun Danmerkur hefur endurskoðað ársreikning Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2021 og komist að þeirri niðurstöðu að hann sé réttur.

Hins vegar hefur innra eftirliti með reglulegum reikningsskilum verið ábótavant af hálfu Norrænu ráðherranefndarinnar hluta af árinu 2021.

Efnahagsstjórn ábótavant

Nýir og skilvirkari verkferlar voru ekki teknir upp fyrr en svolítið var liðið á árið 2021. Því voru annmarkar á efnahagsstjórn stofnunarinnar á tímabili. Meðal annars hefur þetta skapað erfiðleika við að gera rétt og nákvæm regluleg reikningsskil og ársfjórðungsskýrslur.

 

Ríkisendurskoðun gerir einnig athugasemdir við fjármögnun verkefna hjá Norrænu ráðherranefndinni, sem er stærsti hluti starfseminnar. Þar hefur skort nægilega skráningu gagna um ákvarðanir ráðherranefndarinnar um fjármögnun og stýringu á henni.

Kemur ekki á óvart

Ríkisendurskoðun leggur því fram greinargerð með tveimur fyrirvörum sem Gerner Oddershede, fjármálastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir eftirfarandi um:

„Þeir ágallar sem Ríkisendurskoðun bendir á eru alvarlegir en þessi gagnrýni kemur okkur ekki á óvart. Undanfarin ár höfum við unnið ötullega og markvisst að því að leysa þessi vandamál. Aðgerðir okkar ná þó ekki til alls ársins,“ segir Gerner Oddersehede, og heldur áfram:

„Meðal forystunnar er mikil samstaða. Bæði stjórn Norrænu ráðherranefndarinnar og stjórnvöld fylgjast náið með þróun efnahagsstjórnunarinnar.“

Nýtt fjármálakerfi 2018

Við endurskoðun sína á ársreikningi Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2019 fann Ríkisendurskoðun mikla ágalla og gat ekki lagt mat á hvort ársreikningurinn væri réttur.

Stóran hluta vandamálsins mátti rekja til þess að árið 2018 var tekið upp nýtt fjármálakerfi hjá Norrænu ráðherranefndinni. 

 

Contact information