Sameiginleg ábyrgð á hafinu

10.04.18 | Fréttir
Fiskerbåd ved Grindavik på Island
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Norðurlöndin standa saman um að tryggja öryggi að hafsins og lífsins í hafinu sem er mikilvægasta náttúruauðlind landanna. Hafið og 14. sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna var þema á þemaþingi Norðurlandaráðs á Akureyri.

 „Hafið er matarkista allra Norðurlandanna. Það á að standa til framtíðar. Það fæðir milljónir manna um allan heim. Við verðum að umgangast hafið á sjálfbæran hátt,“ segir Annette Lind frá flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.

Hafið er sérstakt forgangssvið í norrænu samstarfi á þessu ári undir formennsku Noregs í Norðurlandaráði. Í norsku áætluninni fyrir árið 2018 kemur meðal annars fram að undir formennsku þeirra skuli unnið að því að Norðurlöndin séu sameiginlega í fararbroddi fyrir „reglustýrðri sjálfbærri nýtingu auðlinda hafisins“.

Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á hafstrauma og um leið vistkerfi hafsins. Bæði fræðikenningar og rannsóknir sýna að meðalhitastig jarðar fer hækkandi vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Starfsemi manna hefur áhrif á orkujafnvægi sólar og jarðar. Jörðin mun hlýna en hlýnunin getur verið mismunandi eftir svæðum. Hækkun hitastigs hafsins getur haft þau áhrif að fiskistofnar færa sig til norðurs þegar hafsvæði hlýna, það getur aukið aflatækifæri. Í þessu felst þó áhætta og áhrifin geta orðið afar neikvæð vegna hugsanlegra áhrifa loftslagsbreytinga á hafstrauma, súrnunar og lægra sýrustigs sjávar.

Hnattrænt vandamál 

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar og því þarf að bregðast við þeim með hnattrænum aðgerðum. Parísarsamkomulagið frá 2015 er verkfæri í viðleitninni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Norðurlöndin geta verið í fararbroddi og vísað veginn í átt að kolefnishlutlausu samfélagi. Loftslagsbreytingar eru þó óhjákvæmilegar. Norðurlöndin geta unnið saman að öflun þekkingar um hvernig súrnun og breytingar hafstrauma hafa áhrif á vistkerfi hafsins og hvernig strandbyggðir sem verða fyrir áhrifum af þeim sökum geta undirbúið sig.

„Í ljósi þess hvernig nútímasamfélag hefur reynt á þolmörk hafsins með plasti, koltvísýringsmengun og mengun almennt þá er afar mikilvægt að heimurinn allur beini sjónum að hafinu og einnig við á Norðurlöndum,“ segir Solfrid Lerbrekk í flokkahópi vinstri grænna í Norðurlandaráði.

Matarbúrið

Hafsvæði Norðurlanda eru víðfeðm. Það kemur því ekki á óvart að norrænu ríkin eru tiltölulega stórar fiskveiðiþjóðir. Fiskveiðar gegna afgerandi efnahagslegu hlutverki fyrir norrænar strandbyggðir við Norður-Atlantshaf. Sjálfbær nýting auðlinda hafsins, sem byggir á þekkingu ásamt heilbrigðum vistkerfum, er grundvöllur sjávarútvegs til framtíðar. Þetta er sérstakt áherslumál hjá Vilhjálmi Árnasyni frá Íslandi og flokkahópi hægrimanna í Norðurlandaráði.

„Það er mikilvægt fyrir Ísland að Norðurlandaráð leggi mikla áherslu á málefni hafsins þar sem Ísland hefur byggt allt sitt samfélag upp á hafinu og í kringum hafið. Ísland er eyja þannig að allt sem við gerum tengist hafinu. Okkur hefur tekist að nýta auðlindirnar vel. Það er mikilvægt fyrir vöxt okkar samfélags og fyrir komandi kynslóðir að þessar auðlindir verði enn þá til staðar í framtíðinni.“