Susanne Andreasen nýr formaður Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi

16.08.24 | Fréttir
Susanne Andreasen tillträder som direktör för NAPA den 1 september.

Susanne Andreasen tillträder som direktör för NAPA den 1 september.

Ljósmyndari
Jonas Nilsson / Norden.org

Susanne Andreasen tekur við sem formaður NAPA 1. september.

Susanne Andreasen verður næsti formaður Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi, NAPA. Hún hefur mikla reynslu af menningar- og leikhúsmálum á Grænlandi.

Susanne Andreasen gegndi meðal annars stöðu leikhússtjóra í grænlenska þjóðleikhúsinu (Nunatta Isiginnaartitsisarfia) árin 2016–2023 og bar ábyrgð á leikhúsinu og leiklistarskólanum. Frá október 2023 hefur hún veitt menningarhátíðinni Suialaa Arts Festival (áður Norræna menningarhátíðin í Nuuk) forstöðu.

Þá hefur hún verið sjálfstætt starfandi verkefnastjóri ásamt því að sinna fræðslu og skipuleggja viðburði í Katuaq, menningarhúsi Grænlands.

Andreasen er með gráðu í leiklistarfræði frá Árósarháskóla auk menntunar í leiðtogafræðum.

„Ég hlakka mjög til að heyra í lista- og menningarfólki og fá að styðja við greinina og þróa hana í samvinnu við það. NAPA er að mínu mati mikilvæg stofnun og að mínu mati er jafnframt mikilvægt að Norðurlönd viðurkenni og taki tillit til sjónarmiða norðurslóða,“ segir Susanne Andreasen.

Susanne Andreasen tekur við sem formaður NAPA 1. september. Hún tekur við stöðunni af Søren Würtz.

NAPA er menningarstofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og er með skrifstofu í höfuðborg Grænlands, Nuuk. Starfsemi NAPA beinist að því að þróa og örva grænlenskt og norrænt menningarlíf með sérstakri áherslu á börn og ungmenni.