„Takið forystu í sjálfbærnimálum, Norðurlönd!“

30.05.17 | Fréttir
 Launch of Nordic Solutions to Global Challenges
Ljósmyndari
Silje Katrine Robinson/norden.org
Norðurlönd eru í einstakri stöðu á heimsvísu til að taka forystu í sjálfbærnistarfi. Þetta voru skilaboð þriggja alþjóðlegra áhrifakvenna – Fadumo Dayib, Gunhild Stordalen og Katherine Richardson – til norrænu forsætisráðherranna í Austevoll fyrir utan Björgvin í Noregi í dag.

Framtaksverkefni forsætisráðherranna, „Nordic solutions to Global Challenges“, var kynnt á þriðjudagsmorgun við Hafrannsóknastofnun litla fiskibæjarins Austevoll í Noregi.

Þrátt fyrir smæð bæjarins er það í Austevoll sem haffræðingar fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Þangað hélt Katherine Richardson, sérfræðingur í fræðilegum eftirfylgnihópi Sameinuðu þjóðanna vegna heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun fram til ársins 2030, til að vera viðstödd kynningu hins alþjóðlega verkefnis.

„Verkefnið er þýðingarmikið vegna þess að það veitir Norðurlöndum einstakt tækifæri til að færa endurnýjanlegar loftslags- og orkulausnir út á heimsmarkaðinn. Parísarsamkomulagið skapaði gríðarstóran markað fyrir slíkar lausnir og hér standa Norðurlönd ákaflega vel,“ sagði Katherine Richardson.

Holdgervingur norræns jafnréttis

Í Austevoll var einnig Fadumo Dayib, settur framkvæmdastjóri Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Women) í Sómalíu. Hún sagði forsætisráðherrunum frá því þegar hún kom til Finnlands sem flóttamaður átján ára gömul, með aðeins fimm ára skólagöngu að baki. Í Finnlandi gat hún lagt grunn að lífi sínu sem vel menntaður, fjárhagslega sjálfstæður og pólitískt virkur einstaklingur. 

Í fyrra varð Fadumo Dayib fyrsti kvenkyns forsetaframbjóðandi Sómalíu.

„Frammi fyrir ykkur stendur manneskja sem er holdgervingur „norrænu kynjaáhrifanna,““ sagði Dayib, og vísaði þar til „The Nordic Gender Effect“, eins af þremur meginþemum í verkefni forsætisráðherranna.

Norðurlönd geta orðið Sílikondalur fyrir matvælaframleiðslu framtíðarinnar. Hér er að finna þá þekkingu og nýsköpun sem þarf til að þróa sjálfbærar matarlausnir. Ef Norðurlönd gera það ekki, hver þá? 

Sílikondalur matvælaframleiðslu framtíðarinnar

Hin tvö þemun í verkefni forsætisráðherranna, auk „Nordic Gender Effect“, eru „Nordic Green“ og „Nordic Food and Welfare“.

Gunhild Stordalen, framkvæmdastjóri og stofnandi stofnunarinnar EAT, skoraði á forsætisráðherrana að koma á fót norrænni rannsóknamiðstöð fyrir matvæli, heilsu og umhverfi.

„Norðurlönd geta orðið Sílikondalur fyrir matvælaframleiðslu framtíðarinnar. Hér er að finna þá þekkingu og nýsköpun sem þarf til að þróa sjálfbærar matarlausnir. Ef Norðurlönd gera það ekki, hver þá?“ sagði Gunhild Stordalen.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, og forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, tóku vel í hvatningu Stordalen og sögðu hugmyndina um norræna rannnsóknamiðstöð um sjálfbær matvæli vera afar góða.

„Í fyrsta lagi eigum við að framleiða mat með sjálfbærum hætti, í öðru lagi eiga góð og náttúruleg matvæli að vera aðgengileg venjulegu fólki,“ sagði Erna Solberg.

Þriggja ára þekkingarmiðlun

 Á næstu þremur árum verður sex flaggskipsverkefnum ýtt úr vör úti í heimi undir merkjum verkefnisins „Nordic solutions to Global Challenges“.

Frá 2017 til og með ársins 2019 eiga þessi verkefni að auka sýnileika norrænnar reynslu, lausna og viðhorfa í alþjóðlegu samhengi þar sem við á.

Verkefnið er að stærstum hluta fjármagnað með sameiginlegu norrænu fjármagni. Eins og stendur eru 74 milljónir danskra króna eyrnamerktar verkefninu, en sú upphæð getur enn hækkað.