Taktu þátt í ljósmyndasamkeppni fyrir ungt fólk á Norðurlöndum – þú gætir unnið þér inn 25.000 danskra króna

26.03.19 | Fréttir
Fotograf
Ljósmyndari
Justin Main
Við hjá Norrænu ráðherranefndinni notum fjöldann allan af ljósmyndum í útgáfu, kynningum, herferðum og viðburðum á samfélagsmiðlum á okkar vegum, svo ekki sé minnst á heimasíðuna okkar, norden.org. Við viljum því bjóða ungu fólki á Norðurlöndum að leggja sitt af mörkum til myndasafnsins okkar. Aldurstakmarkið er 30 ára.

Myndefnið á að snúa að jafnrétti, stafrænni þróun, fólki með fötlun, lýðræði eða aðlögun. Verði þín hugmynd fyrir valinu, færðu greiddar 25.000 danskra króna fyrir vinnu þína. Við veljum samtals átta tillögur af þeim sem okkur berast – eina frá hverju Norðurlandanna, ásamt einni frá Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Myndirnar verða hluti af ljósmyndasafni okkar, þar sem hver sem vill getur skoðað þær og notað eftir eigin höfði. Við gerum einungis þá kröfu að notendur vísi til höfundar myndarinnar.

MYNDIRNAR ÞÍNAR

Myndirnar eiga að fylgja þeim viðmiðum sem sett eru fram í handbók okkar um útlitshönnun: http://design-en.norden.org/images. Við hvetjum þig til að lesa sérstaklega vel kaflann sem fjallar um líf á Norðurlöndum. Við erum að leita að myndum sem sýna alls konar fólk á Norðurlöndum.

Myndefnið á að snúa að einhverju af þeim fimm sviðum sem talin eru upp hér fyrir neðan. Undir hverju sviði höfum við tekið saman nokkur stikkorð sem þú getur notað til viðmiðunar. Þér er einnig velkomið að stinga upp á öðru myndefni en það skal þó falla undir eitthvert af þessum fimm sviðum.

Við munum nota myndirnar á fjölbreyttum vettvangi: á heimasíðunni, samfélagsmiðlum, viðburðum, í útgáfu, kynningum og herferðum. Myndirnar þurfa að henta fyrir bæði stórt og smátt sniðmát og það þarf að vera hægt að nota þær bæði saman og einar og sér.  Það er því mikilvægt að ákveðin ró sé í myndunum. Sumar myndanna geta sýnt einhverja heildarmynd en aðrar smáatriði í nærmynd.

Jafnréttismál

 • MeToo-hreyfingin
 • Karlar í kvennastörfum eða konur í karlastörfum
 • Konur í stjórnunarstöðum
 • Foreldrar í fæðingarorlofi
 • Sveigjanleiki fyrir foreldra ungbarna (vinnutími, vinna að heiman)

Stafræn þróun

 • Tölvustýrð umferðarstjórnun
 • Snjallheimili
 • Gervigreind
 • Stafræn heilbrigðisþjónusta
 • Stafræn félagsþjónusta

Fólk með fötlun

 • Fjölskyldulíf
 • Daglegt líf
 • Ráðstefnur, fundir, atvinnulíf
 • Skólar og nám
 • Frítími (ferðalög, hreyfing, útivist, almenningssamgöngur)
 • Þátttaka í pólitísku starfi

Aðlögunarmál

 • Á vinnustaðnum
 • Tómstundaiðja barna og ungmenna
 • Börn, ungmenni og fullorðnir í námi
 • Hverfi sem einkennast af bágri félagslegri stöðu íbúanna

Lýðræði

 • Aðild
 • Samtal milli einstaklinga
 • Þátttaka
 • Aktívismi

Umsókn

Lýstu hugmyndinni þinni í stuttu máli og taktu fram hvar og hvenær þú hyggst taka myndirnar. Skrifaðu líka stutta kynningu á sjálfri/sjálfum þér. Við höfum áhuga á að sjá myndir sem þú hefur tekið áður og í öðru samhengi. Safnaðu þeim saman í eina pdf-skrá. Mette Agger Tang, grafískur hönnuður, tekur við umsóknargögnum á netfangið mettan@norden.org til og með 1. maí 2019. Hafir þú spurningar getur þú sent þær á sama netfang. Við svörum öllum umsækjendum – bæði þeim heppnu og þeim síður heppnu.

HVAÐ GERIST EF ÞÍN HUGMYND VERÐUR FYRIR VALINU?

 • Þú sérð sjálf/ur um að fá leyfi fyrir myndatökum á þeim tökustöðum sem þú velur.
 • Þú þarft að gæta þess að einstaklingarnir á myndunum fylli út eyðublað um persónuvernd sem þú færð hjá okkur.
 • Athugaðu að Norræna ráðherranefndin mun eiga öll réttindi yfir myndunum.
 • Sendu okkur að lágmarki 25 myndir, í seinasta lagi þann 1. ágúst 2019.
 • Þegar við  höfum móttekið myndirnar þínar leggjum við 25.000 danskra króna inn á reikninginn þinn.
Tengiliður