Theresa May: - Við viljum ekki snúa baki við Norðurlöndum

30.10.18 | Fréttir
Theresa May taler i Plenum Stortinget, Nordisk Råds Session 2018

Theresa May taler i Plenum Stortinget, Nordisk Råds Session 2018

Photographer
Sara Johannessen

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, heimsótti Stórþingið á þriðjudaginn, þann 30. október, í tilefni af setningu 70. þings Norðurlandaráðs – leiðtogafundar Norðurlanda.

Þetta er í fyrsta sinn sem May heimsækir Noreg sem forsætisráðherra. Mikil eftirvænting ríkti eftir að heyra um framtíðarsýn May á norrænt samstarf, í ljósi Brexit og samningaviðræðna Bretlands við ESB um tvíhliða samning.

Samstarfið á að efla

- Ég get fullvissað ykkur um það að hinu nána samstarfi við Norðurlönd verður haldið áfram eftir Brexit. Við viljum ekki snúa baki við heiminum og við viljum ekki snúa baki við Norðurlöndum, sagði May í ræðu sem hún hélt fyrir norræna þingmenn og ráðherra sem saman voru komnir í Stórþingssalnum. Slíkt hefur hún ekki enn gert á Evrópuþinginu.

May fór lofsverðum orðum um hið langvarandi, nána samstarf sem hefur verið milli Bretlands og Norðurlanda. Hún fullyrti að samstarfinu yrði haldið áfram og að hún myndi beita sér fyrir því að efla sambandið eftir úrgöngu Bretlands úr ESB.

Við setningu þingsins tók May á móti spurningum frá fulltrúum. Á meðal þeirra sem lögðu fram spurningu var Christian Juhl, fulltrúi fyrir flokkahópinn Norræn vinstri græn í Norðurlandaráði. Juhl spurði hvernig Bretland hygðist framfylgja þeim loftslagsskuldbindingum sem tilteknar eru í Parísarsamkomulaginu og hvort Bretland ætlaði að fylgja fordæmi Bandaríkjanna eða ESB.

Heimili okkar eru uppfull af skandínavískri hönnun. Sum okkar dansa líka af og til við tónlist Abba. 

Theresa May

Parísarsamkomulagið

- Við höfum farið aðra leið en Bandaríkin þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Við höldum áfram þátttöku í Parísarsamkomulaginu, svaraði May með skýrum hætti, og bætti við:

- Ég vil vera hluti af ríkisstjórn sem reynir að tryggja að við skiljum við jörðina okkar í betri ástandi en hún var í þegar við tókum við henni. Við verðum að halda áfram að vísa veginn í umhverfis- og loftslagsmálum, sagði May og lagði áherslu á mikilvægi þess að Norðurlönd og Bretland starfi saman að nýsköpun og tækniþróun á sviði umhverfismála.

Erkki Tuomioja úr flokkahópi jafnaðarmanna spurði May hvort líkur væri á nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu, ef ekki skyldi nást samkomulag við ESB.

- Þessa spurningu fær ég reglulega en breska þjóðin hefur kosið og hún kaus að ganga úr ESB, sagði May.

May nýtti einnig tækifærið til að hrósa norrænni hönnun og benti á að norræn menning ætti líka sinn stað í Bretlandi.

- Heimili okkar eru uppfull af skandínavískri hönnun. Sum okkar dansa líka af og til við tónlist Abba, sagði breski forsætisráðherrann og vísaði þar með í eigin danshæfni sem hlotið hefur mikla athygli á samfélagsmiðlum undanfarið ár.

Það var Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs 2018, sem bauð Theresu May að taka þátt í þinginu.

Sendinefnd Norðurlandaráðs á Stórþinginu skipuleggur þingið þetta árið, þar sem 87 þingmenn frá Norðurlöndum taka þátt, ásamt gestum meðal annars úr þingmannanefnd norðurskautsins, Eystrasaltsráðinu, Vestnorræna ráðinu, þingmannanefnd EFTA, Evrópuráðsþinginu, Evrópuþinginu og Benelúx-þinginu.