Ungt fólk gerist ráðgjafar Norrænu ráðherranefndarinnar

14.09.21 | Fréttir
Billie og Amalie rådgiver Nordisk Ministerråd

Billie og Amalie rådgiver Nordisk Ministerråd

Photographer
Maria Lomholdt

Billie og Amalie gefa Norrænu ráðherranefndinni ráð

 

Ungt fólk gegnir lykilhlutverki í þróun nýs fræðsluefnis sem ætlað er að útskýra hvað Norræna ráðherranefndin er og hvers vegna vinna hennar gagnast börnum og ungmennum á Norðurlöndum.

„Mér finnst að við höfum hjálpað til þannig að börn skilji þetta betur,“ segir Amalie þegar hún er spurð um þátttöku sína og annarra barna í gerð hins nýja fræðsluefnis sem beinist að börnum og ungmennum og veitir upplýsingar um Norrænu ráðherranefndina. Markmið Norrænu ráðherranefndarinnar er að Norðurlöndin verði besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni og hún vinnur samkvæmt stefnumörkun um að virkja börn og ungmenni í þeirri vinnu. Þess vegna tók Norræna ráðherranefndin upp samstarf við Billie, Amalie, Alfred, Emmu og Minnu sem eru í 6. bekk Molsskolen í Djursland í Danmörku.

Erfið orð og flókið skipulag

Fræðsluefnið er byggt upp á skýringartextum og myndefni. Meðal þess sem unga fólkið benti fyrst á voru „erfið orð“. Þetta eru orð sem börnin sáu að fullorðnir skildu en þau og jafnaldrar þeirra ættu erfitt með að skilja. Þess vegna var erfiðum orðum fækkað um leið og orð og skilgreiningar sem áttu að vera með voru útskýrð vel. Þá var unnið að því að finna myndefni sem gæti stutt textann og búa til góðar sjónrænar útskýringar á skipulagi og ferlum sem geta virst snúnir í augum barna.      

Mér finnst að við höfum hjálpað til þannig að börn skilji þetta betur

Amalie

Norræna ráðherranefndin gefur gott fordæmi

Starfsfólki Norrænu ráherranefndarinnar var boðin kennsla í því hvers vegna skiptir máli að vinna með börnum og ungmennum á ákveðnum sviðum ásamt því hvernig er hægt að útfæra þá vinnu. „Þetta samstarf við börnin er dæmi um að Norræna ráðherranefndin er sjálf í fararbroddi og starfar í samræmi við stefnumótun sem norrænir ráðherrar myndu vilja sjá meira af,“ segir Alexandra Ronkina, aðalráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni. Og ef við spyrjum krakkana úr Molsskolen þá var það alls ekki slæm hugmynd að fá þau í lið með sér:   „Ég vil svo sem ekkert vera að monta mig en ég er mjög góður í svona. Þetta hefði að minnsta kosti ekki orðið jafngott ef Minna og Alfred og Emma og Amalie og ég hefðum ekki verið með,“ segir Billie.