Utanríkisráðherrarnir gera nýja úttekt á öryggisstefnu

30.10.19 | Fréttir
Guðlaugur Þór Þórðarson, Islands utrikesminister, vid Nordiska rådets session i Stockholm 2019
Photographer
Johannes Jansson
Til verður ný Stoltenberg-skýrsla um aukið norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. Þetta ákváðu norrænu utanríkisráðherrarnir á miðvikudag í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.

Norðurlöndum stafar ógn af allt öðru nú en fyrir tíu árum – stigvaxandi loftslagsbreytingum, tölvuógnum og bakslagi í heiminum á sviði lýðræðis, réttinda til kynfrelsis og barneigna og öðrum mannréttindum.

Stuðningur almennings

Þess vegna verður nú efnt til úttektar á öryggistefnu innan ramma norræns samstarfs.  

„Stoltenberg-skýrslan var vel heppnuð en nú er uppi allt önnur staða í heiminum. Góðu fréttirnar eru að stuðningur við nánara og betra samstarf um öryggismál er mikill meðal almennings í norrænu ríkjunum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra á Íslandi.

Setti málið á dagskrá

Stoltenberg-skýrslan frá 2009 setti málefnið á dagskrá í norrænu samstarfi og gerði að verkum að farið var að ræða um sameiginleg málefni sem sneru að öryggismálum.

Skýrslan var unnin af fyrrum varnarmála- og utanríkisráðherra Noregs, Thorvald Stoltenberg, að frumkvæði norrænu utanríkisráðherranna.

Stoltenberg II

Þegar norrænu utanríkisráðherrarnir komu saman í Stokkhólmi á miðvikudag tóku þeir ákvörðun um að gera Stoltenberg-skýrslu II.

Skýrslan verður unnin af Birni Bjarnasyni, fyrrum ráðherra á Íslandi.

Honum er ætlað að afhenda norrænu utanríkisráðherrunum tillögur sínar um mitt ár 2020.

Mikilvægt fyrir norrænt samstarf

Margar hinna 13 tillagna Stoltenbergs hafa orðið að raunveruleika og litið er svo á að þær hafi haft mikla þýðingu fyrir samstarfið milli norrænu ríkjanna.

„Stoltenberg-skýrslan var afar vel heppnuð. Hún hefur leitt til þess að við höfum unnið meira saman varðandi æfingar og björgunaraðgerðir,“ segir Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs. 

Norðurlandaráð hefur lengi óskað eftir nýrri skýrslu.  

„Við vonum að með henni verði tekið næsta skref. Við höfum bent á þörfina fyrir samstarf um öryggi almennings og almannavarnir, svo sem varðandi dreifingu á varningi og baráttu gegn skógareldum,“ segir Hans Wallmark.

Í Stoltenberg-skýrslunni voru 13 tillögur:

  • Viðbragðssveit til að koma á hernaðarlegum og borgaralegum stöðugleika.
  • Norrænt samstarf um loftrýmiseftirlit yfir Íslandi.
  • Norrænt eftirlitskerfi með hafsvæðum.
  • Viðbragðssveit á sjó.
  • Gervihnattakerfi til eftirlits og samskipta.
  • Norrænt samstarf um málefni norðurslóða.
  • Þekkingarnet gegn stafrænum netum.
  • Hamfarasveit.
  • Rannsóknarmiðstöð vegna stríðsglæpa
  • Samstarf um utanríkismál.
  • Hernaðarlegt samstarf um flutninga, hreinlæti, menntun, efni og æfingasvæði.
  • Viðbragðssveit á landi og sjó.
  • Norræn stuðningsyfirlýsing.