Velferðarmódel til framtíðar

15.06.17 | Fréttir
Árna Páli Árnasyni hefur verið falið að vinna stefnumótandi úttekt á norræna velferðarmódelinu á sviði félagsmála. Gert er ráð fyrir að hann ljúki verkinu fyrir mitt ár 2018.

Fimmtudaginn 15. júní tilkynnti Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, að hann hefði fengið Árna Pál Árnason, fyrrum félags- og tryggingamálaráðherra Íslands, til að vinna stefnumótandi úttekt á félagsmálasviðinu. _

 „Ég er stoltur og þakklátur fyrir að vera treyst fyrir þessu mikilvæga verkefni. Reynsla Norðurlandaþjóðanna á sviði félagsmála er til eftirbreytni í heiminum og við verðum að halda þeirri stöðu. Norræna félagsmálasamstarfið, þar sem við berum saman reynslu okkar og leggjum á ráðin um áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, getur ráðið úrslitum um hvort okkur tekst að halda forystunni á þessu sviði,“ segir Árni Páll Árnason.

Árni Páll var efnahags- og viðskiptaráðherra á árunum 2010–2011 og formaður íslensku landsdeildarinnar í Norðurlandaráði á árunum 2007–2009. Hann er lögfræðingur að mennt og starfaði um árabil hjá utanríkisþjónustunni og sem pólitískur ráðgjafi með Evrópurétt og öryggismál sem sérsvið. Árni Páll sat á Alþingi á árunum 2007–2016 og var formaður Samfylkingarinnar 2013–2016.

 „Traust pólitísk og fagleg reynsla Árna Páls og djúpstæð þekking hans á norrænu samstarfi veitir honum bestu forsendur til að geta greint sóknarfæri í samstarfinu um félagsmál á næstu árum. Ég hlakka til að heyra tillögur hans að ári liðnu,“ sagði Dagfinn Høybråten framkvæmdastjóri þegar hann tilkynnti um tilnefninguna.

Umboðið

Norræna velferðarmódelið er á heimsmælikvarða. En þegar sótt er að velferðinni verður að þróa módelið í þá veru að það verði sjálfbært og geti veitt þá þjónustu sem samfélagið gerir ráð fyrir og tryggt bestu gæði sem völ er á. Heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar Norðurlanda samþykktu í mars sl. að veita fé í stefnumótandi úttekt á sviði félagsmála. Óska þeir eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

  • Hvernig getur samstarfið náð fram norrænu notagildi með hagræðingu og/eða meiri gæðum?
  • Hvar leynast helstu sóknarfærin hvað varðar færni og afkastagetu og/eða hvar er þörf á að auka færni og afkastagetu?
  • Hvernig á að ganga til verks, tillögur að verkaskiptingu, samræmingu og sameiginlegum lausnum? Þá er æskilegt að fá ábendingar um hvar þörf sé á þverlægu samstarfi fagsviðanna.

Svör við framangreindum spurningum skulu tilgreina aðgerðir, þjónustu og bætur fyrir börn, einstaklinga sem standa höllum gæti, fatlað fólk og eldri borgara. Úttektin tekur fyrir starf hins opinbera á sviði félagsmála en einnig borgarasamfélagsins í þágu kvenna og karla, stráka og stelpna.

Úttektin er sú sjötta sem unnin er í norrænu samstarfi. Thorvald Stoltenberg reið á vaðið með svonefndri Stoltenbergskýrslu um sóknarfæri í norrænu samstarfi á sviði varnar- og öryggismála. Þá vann Bo Könberg stefnumótandi úttekt á samstarfi um heilbrigðismál og Poul Nielson á vinnumálasamstarfinu. Unnið er að úttektum á samstarfi í orkumálum og umhverfismálum.