Verðlaunabækur bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs á öllum Norðurlandamálunum

01.11.17 | Fréttir
Jorodd Asphjell
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Sama dag og tilkynnt er hverjir hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2017 samþykkti Norðurlandaráð tillögu þess efnis að auka fjárstuðning við þýðingar á norrænum bókum og eyrnamerkja viðbótarstuðninginn bókum sem vinna bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

- Við viljum að þessar bækur séu aðgengilegar eins mörgum og kostur er á öllum Norðurlöndunum þannig að þær geti styrkt hið mikilvæga norræna menningarsamfélag, segir Jorodd Asphell, formaður norrænu þekkingar- og menningarmálanefndarinnar.

Norska sjónvarpsstöðin NRK hefur tekið saman yfirlit bækur sem hlotið hafa Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og hafa verið þýddar síðan 2006. Fram kom að eitt verk hafði ekki verið þýtt á norsku og dönsku, þrjú voru ekki þýdd á íslensku og fimm voru ekki þýdd á finnsku og færeysku. Engin af bókunum hafði verið þýdd á grænlensku eða samísku.

Það er á valdi bókaforlaga að ákveða hvort tilnefndar bækur og verðlaunabækur bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs eru þýddar og gefnar út í öðrum norrænum ríkjum. Upphæðin sem Norræna ráðherranefndin ver til að styrkja þýðingar á norrænum bókum nemur 3,1 milljón danskra króna. Fulltrúar í Norðurlandaráði vona að aukin framlög muni hafa jákvæð áhrif á þann veg að fleiri verk verði þýdd og gefin út.

Tillagan var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki og verður send þaðan til Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál. 

Rætt hefur verið um kynjahlutfall tilnefndra og verðlaunahafa allra menningarverðlauna Norðurlandaráðs undanfarin tíu ár í Þekkingar- og menningarnefndinni. Fulltrúar í nefndinni virða þá vinnu sem á sér stað innan Norrænu ráðherranefndarinnar sem stuðlar að aukinni meðvitund um jafnrétti og margbreytileika þegar kemur að verðlaununum.