Verðlaunaveiting Norðurlandaráðs í beinni útsendingu frá Stokkhólmi 29. október

21.10.19 | Fréttir
Nordiska rådets prisutdelning i Konserthuset Stockholm
Ljósmyndari
Konserthuset Stockholm/Anna Wernemyr
Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tónlistarhúsi Stokkhólms þann 29. október og verður verðlaunahátíðin send út beint undir stjórn þáttastjórnandans Jessiku Gedin. Verðlaunahafarnir taka við verðlaununum úr hendi Stefán Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Nouru Berrouba, aðgerðarsinna á sviði umhverfismála, Johannesar Anyuru rithöfundar, Lenu Ceciliu Sparrok leikkonu og Susönnu Mälkki, hljómsveitarstjóra og fyrrum verðlaunahafa.

Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála. Í ár eru þingmenn sænska þingsins í Norðurlandaráði gestgjafar verðlaunahátíðarinnar. Hans Wallmark forseti Norðurlandaráðs fagnar sterku og nánu menningarsamstarfi Norðurlandanna.

„Verðlaun Norðurlandaráðs gegna mikilvægu hlutverki við að vekja athygli á og styðja listræna sköpun og hvetjandi aðgerðir í umhverfismálum sem er að finna á svæðinu okkar. Það er ótrúlega ánægjulegt að safnast saman í Stokkhólmi til þess að njóta og fagna norrænni menningu og ekki síst þeim sem tilnefndir eru til verðlaunanna fimm í ár.

Einstök framlög til menningar og umhverfis

52 verk, verkefni og listamenn eru tilnefnd til hinna fimm verðlauna Norðurlandaráðs árið 2019. Meðal þess er að finna skáldsögur, smásögur, myndabækur og ljóðabækur, frumraunir á sviði leikinna kvikmynda, heimildarmynd, fiðluleikara, söngvara og munnhörpukvartett, ljótt grænmeti, prjónaðar peysur og einn áhrifamesta táning heims.

Verðlaunahafarnir fimm taka við verðlaunagripnum Norðurljósum og 350 þúsund dönskum krónum. Þessi afhenda verðlaunin í ár:

  • Stefan Löfven forsætisráðherra afhendir barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019
  • Susanna Mälkki hljómsveitarstjóri og fyrrum handhafi verðlaunanna afhendir tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2019
  • Noura Berrouba aðgerðarsinni á sviði umhverfismála afhendir umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2019
  • Lene Cecilia Sparrok leikkona afhendir kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2019
  • Johannes Anyuru rithöfundur afhendir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019

Frá klassík til popptónlistar

Menningarblaðamaðurinn og þáttastjórnandinn Jessika Gedin stýrir hátíðinni og geta áhorfendur hlakkað til framúrskarandi flutnings hljómsveitarinnar Västerås Sinfonietta og aðalhljómsveitarstjórans Catherine Winnes, íslenska dúósins Hugar, The Mamas sem slegið hefur rækilega í gegn og margra fleiri. Bosse Persson framleiðandi hefur eftirfarandi að segja um hugsunina að baki útsendingunni:

„Við leggjum mikla áherslu á að fagna öllum verðlaunahöfum og tilnefndum vel, bæði úr salnum og af þeim sem taka þátt á sviðinu. Auk hefðbundinna dagskrárliða sem tengjast verðlaunaveitingunni bjóðum við upp á tónlist og skemmtun sem byggir á sænskum og norrænum grunni. Allt frá sígildri þjóðernisrómantík til popptónlistar, meðal annars frumflutningur á verki fyrir selló, litla sinfóníuhljómsveit og rafeindatóna sem einnig er sjónrænt og pantað var sérstaklega. Mjög skemmtilegt!“

Horfa á verðlaunaveitinguna á SVT Play

Útsendingin frá tónlistarhúsinu í Stokkhólmi hefst klukkan 19.30 og hægt er að horfa á hana á SVT Play um öll Norðurlönd. Verðlaunahátíðin er einnig send út á öðrum almannaþjónustustöðvum á Norðurlöndum. Sjá sjónvarpsdagskrár viðkomandi landa vegna tímasetninga.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs eru á meðal virtustu verðlauna Norðurlanda og hljóta jafnan mikla alþjóðlega athygli. Bókmenntaverðlaunin eru elst af verðlaununum fimm. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Eftir það komu tónlistarverðlaunin, umhverfisverðlaunin, kvikmyndaverðlaunin og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin. Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tengslum við 71. þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi þar sem þingmenn, forsætisráðherrar og fleiri ráðherrar auk leiðtoga stjórnarandstöðu frá öllum Norðurlöndunum koma saman og ræða stjórnmál og stefnumótun.

Fyrir fjölmiðla

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt tónlistarhúsi Stokkhólms 29. október kl. 19.30. Nauðsynlegt er að vera skráð/ur á þingið til að komast á verðlaunahátíðina.