„Vindorka á hafi úti og grænar siglingar einkenni Norðurlönd“

14.09.20 | Fréttir
Erna Solberg möter Nordiska rådet och Silja Dögg Gunnarsdóttir
Photographer
Matts Lindqvist
Höfin verða súrari, hlýrri, vindasamari og framleiðni þeirra minnkar af völdum loftslagsbreytinga. Höf og strandsamfélög í norðri munu verða fyrir miklum áhrifum á næstu árum. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og formaður Alþjóðlegu leiðtoganefndarinnar um sjálfbært sjávarhagkerfi, ræddi við Norðurlandaráð um leiðir fyrir Norðurlönd til að gera betur í verndun hafsins.

Árið 2018 kom Erna Solberg á laggirnar nefndinni „High Level Panel for Sustainable Ocean Economy“ sem samanstendur af stjórnarleiðtogum 14 strandþjóða.

Markmiðið er að skapa vitund um sjálfbæra nýtingu hafsins og gott sjávarumhverfi á alþjóðavettvangi.

„Hafið hefur alla tíð verið lífæð okkar á Norðurlöndum. Eystrasaltið, Norðursjórinn, Noregshaf, Barentshaf, Íslandshaf og Grænlandshaf. En ef við ætlum okkur að geta lifað á hafinu í framtíðinni þurfum við að grípa til aðgerða svo það verði hreint og heilbrigt og framleiðni þess aukist á nýjan leik,“ sagði Erna Solberg í upphafi samtals síns við meðlimi Norðurlandaráðs.

Hlýrra og súrara haf breytir lífsskilyrðum margra tegunda. Líffræðileg fjölbreytni tapast í stórum stíl og framandi tegundir dreifa sér hratt.

Eru Norðurlönd reiðubúin að vernda hafið?

Jana Salóme frá Norðurlandaráði æskunnar vildi vita hvort norrænu löndin væru reiðubúin að vernda hafsvæði með sama hætti og skógar og önnur verðmæt náttúrusvæði á landi eru vernduð.

 

Erna Solberg svaraði því til að mikilvægt sé að vernda ákveðnar tegundir hafumhverfis en undirstrikaði að árið 2050 gæti íbúafjöldi jarðarinnar verið kominn upp í 10 milljarða og þá yrði meiri þörf en nokkru sinni áður á nýtingu hafsins sem orkugjafa og matarkistu og til samgangna og flutninga.

 

„Það er ekki nóg að vernda hluta hafsins. Fara verður vel með öll hafsvæði. Það borgar sig að hugsa vel um hafið og ströndina. Arðbær viðskipti til sjós eru góð rök fyrir því að fara vel með hafið,“ sagði Erna Solberg.

Norðurlönd verði í fararbroddi í virkjun vindorku á hafi úti

Að mati Ernu er tími til kominn að efla norrænt samstarf í málefnum hafsins. Norrænu löndin geta verið í fararbroddi við þróun endurnýjanlegrar orku úr hafinu, til dæmis með vindorku á hafinu. Hið sama á við um grænar siglingar.

 

Ketil Kjenseth, formanni norrænu sjálfbærninefndarinnar frá Noregi, lék hugur á að vita hvort norrænu forsætisráðherrarnir ráðfærðu sig hver við annan vegna fyrirhugaðs „Parísarsamnings náttúrunnar“, þ.e.a.s. nýs alþjóðasamnings um líffræðilega fjölbreytni.

Þegar hávella stendur gegn virkjun

Staffan Eklöv, sænskur fulltrúi í sjálfbærninefndinni, vildi vita hvað hægt væri að gera þegar hagsmunir af uppbyggingu vindorkuvirkjunar á hafi úti sköruðust til dæmis við hagsmuni af verndun tegunda í hættu á borð við hnísur í Eystrasalti og hávellu.

  

„Töfraorðið er heildarsýn. Það held ég að sé lykillinn að sjálfbæru vistkerfi í sjónum,“ sagði Erna og bætti við:

„Við þurfum að líta á stjórnun siglingaiðnaðarins í samhengi. Við þurfum að líta á umhverfisógnir í samhengi. Og við verðum að líta á stjórnun hafsvæða á lands-, svæðis- og alþjóðlegum vettvangi í samhengi. Þeim skilaboðum vona ég að öll norrænu löndin komi á framfæri á alþjóðavettvangi, einnig í samningaviðræðum um líffræðilega fjölbreytni.“

 

Viðræður Ernu Solberg og Norðurlandaráðs eru hluti af hinum árvissa septemberfundi sem til stóð að færi fram í Ósló en sem nú er haldinn með rafrænum hætti.