Jan Grue

Jan Grue
Ljósmyndari
Amne Valeur
Jan Grue: Jeg lever et liv som ligner deres. En levnetsbeskrivelse. Sjálfsævisögulegur prósi, Gyldendal, 2018. Tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

„Líf okkar saman er ekki útskýring, ekki til þess gert að varpa ljósi á neinn tiltekinn boðskap eða heimspekilegan kjarna, við erum ekki lausnin á siðferðilegri klemmu.“ Svo skrifar Jan Grue, sem í bókinni Jeg lever et liv som ligner deres lýsir lífi sínu og fjölskyldu sinnar á einkar persónulegan máta sem um leið opnar á fjölda pólitískra, heimspekilegra og siðferðilegra hugleiðinga og álitaefna.

Höfundurinn, sem fæddur er 1981, hefur áður sent frá sér fjölda fræðibóka, tvær barnabækur, fjögur smásagnasöfn og eina skáldsögu. Hér færir hann sig yfir í esseyjuprósa sem leikur sér á landamærum hins persónulega og fræðilega og sýnir fram á þá möguleika sem búa í bókmenntum með sjálfsævisögulegum grunni. 

Grue fæddist með sjaldgæfan vöðvasjúkdóm og bókin hefst á setningum sem hann fær oft að heyra þegar fólk sem þekkti hann í bernsku hittir hann í dag; farsælan, vel klæddan fræðimann og föður ungra barna í hjólastól: „Mikið líturðu vel út.“ Undirskilið: „Ert þú enn á lífi?“  „Ég hélt ekki að þú myndir tóra svona lengi“.

Grue er sonur háskólafólks, uppalinn í einbýlishúsi í einu fínasta hverfi Óslóar, og hikar ekki við að lýsa eigin forréttindum til jafns við utangarðsstöðu sína:

„Tveir andstæðir veruleikar geta þrifist hlið við hlið. Ég er í forréttindastöðu og í viðkvæmri stöðu, ég hef lagt hart að mér og þurft á hjálp að halda, sá árangur sem ég hef náð er afrakstur míns eigin erfiðis, en aðeins vegna þess að ég bý í samfélagi sem viðurkennir erfiði mitt og kemur til móts við mig þegar þess er þörf.“

Að leyfa sér að vera viðkvæmur eru einnig forréttindi sem ekki allir njóta, og nokkuð sem Grue notfærir sér í bókinni til að draga upp heildstæða mynd af manneskju. Þar nýtir hann fjöldann allan af heimildum: ekki aðeins eigin minningar heldur einnig það mikla magn gagna um hann sjálfan sem hefur safnast í heilbrigðis- og skólakerfinu gegnum árin. Grue hleypir öðrum röddum inn í minningar sínar; hinum klínísku birtingarmyndum læknisfræðinnar, umskrifuðum gögnum stuðningsaðila, og bókmennta- og heimspekilegum textum sem gera honum kleift að sjá eigin reynslu í stærra pólitísku og félagslegu samhengi. Þannig verður bókin frásögn af því hvernig við sem manneskjur tökum þátt í formgerðum sem við getum komið auga á, greint og að einhverju leyti haft áhrif á, um leið og innsti kjarni persónuleikans gerir ávallt uppreisn gegn þeim þráðum sem toga í okkur:

„Ég trúi því að heimurinn sé óendanlega miklu sterkari en ég og samt reyni ég að þröngva vilja mínum upp á hann.“

Með undirtitlinum „En levnetsbeskrivelse“ dregur Grue bókmenntasögulega línu frá ævisögulegum frásögnum fyrri tíma til life writing; endurminningafrásagna á okkar dögum. Jeg lever et liv som ligner deres gengur inn í stærri hefð endurminningaskrifa í samtímabókmenntum og er undir yfirlýstum áhrifum frá The Argonauts eftir Maggie Nelson, bók þar sem höfundur leikur sér að því að skapa sitt eigið form og fer einnig yfir mörk sjálfsævisögu og esseyju, endurminninga og samfélagspælinga. Um leið gefur hinn ótvíræði samningur, sem lesandi prósa af þessu tagi gengst inn á, rými til að ávarpa lesendur á frelsandi og hreinskilnislegan hátt. Í Jeg lever et liv som ligner deres er áþreifanlegri reynslu lýst með áreynslulausum hætti og hún nýtt sem upphafspunktur margslunginna hugleiðinga, sem eru ekkert síður bókmenntalegar þó að þær birtist á stundum sem rökleiðslur. Þvert á móti.