Liselott Willén

Liselott Willén
Ljósmyndari
Sofia Runarsdotter
Liselott Willén: Det finns inga monster. Skáldsaga, Albert Bonniers förlag, 2017. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

Sumir rithöfundur kunna þá list að flakka áreynslulaust á milli bókmenntagreina.

Liselott Willén, fædd 1972, uppalin á Álandseyjum og nú búsett í Örebro í Svíþjóð, er slíkur rithöfundur. Hún vakti fyrst athygli fyrir frumraun sína, skáldsöguna Sten för sten (2001), og hefur síðan sent frá sér fjölda af sterkum verkum þar sem spennuþrungin augnablik mæta djúpum sálfræðilegum vangaveltum. Það væri einföldun að segja að hún skrifaði í hreinræktuðum stíl glæpa- eða spennusagna. Að baki bugðum söguþráðarins liggur alltaf grunur um augnabliks óöryggi: var atburðarásin í raun og veru svona, eða býr eitthvað undir sem lýkst ekki upp nema lesið sé af sérstakri kostgæfni?

Þetta á svo sannarlega við um skáldsöguna Det finns inga monster sem nú er framlag Álandseyja, heimahaga höfundarins, til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Sögusviðið er á Álandseyjum. Stór hluti atburðarásarinnar á sér stað í brúnmáluðu húsi við hafið þar sem aðalpersónan, hin sjö ára Alice, og fjölskylda hennar urðu eitt sinn fyrir áfalli. Sárin greru aldrei um heilt. Fjölskyldufaðirinn, heimsþekktur píanóleikari sem dró sig í hlé og gerðist organisti í eyjaklasanum, deyr undir óljósum kringumstæðum. Var það slys, sjálfsmorð eða jafnvel morð?

Alice hefur orðið vitni að atburðum sem hún bælir ítrekað niður í huga sér. Óljósar minningar hafa yfirhöndina í meðvitund hennar og verða á stundum til þess að rjúfa samband hennar við veruleikann. Útkoman er sálrænt kviksyndi þar sem óttinn ríkir og það eitt að fara í skólann og hitta félagana leiðir til ofbeldis sem virðist ekki eiga sér neinar skýringar. Í stað þess að láta vel að þeim sem hún er hrifin af slær Alice hann með krepptum hnefa.

Í skáldsögunni er því lýst þegar Alice og móðir hennar koma aftur í húsið við hafið tíu árum síðar. Margt er eins og hana minnti, öðru hefur hún gleymt. En allt kemur aftur upp á yfirborðið aftur: svik móðurinnar, tilraunir föður með fullkomnunaráráttu til að gera dóttur sína að píanóleikara og hégómlegur vilji hans til að veita hinni miklu list vængi í þessu ófrjóa umhverfi. Á meðal minninga hennar eru bátsferðir á sjónum, allt að síðustu árabátsferðinni sem faðir hennar sneri ekki aftur úr.

Liselott Willén tekst meistaralega upp við lýsingar sínar á hræringum minnisins. Það sem virtist gleymt blossar skyndilega upp af nýjum krafti. Alice verður þess vör að allt sem hún vill eyða úr huga sér er enn til staðar og getur fært hana að úrslitastundu þar sem örvænting og sátt liggja á vogarskálunum.

Det finns inga monster er listavel skrifuð bók. Í stuttum, áhrifamiklum setningum er því lýst hvernig þversagnakenndar hvatir eiga í samtali í vitund Alice. Einhvers staðar er lausn að finna, en leiðin að henni er bæði löng og sársaukafull. Lesandinn fylgist með baráttu Alice við ára minnisins, þar sem orðin hamast í takt við hjartað.

Hér er ekki aðeins spennandi lesning á ferð heldur einnig saga sem mótuð er af djúpri innsýn í hinn torræða huga manneskjunnar.