Norrænt menningarverkefni í Kanada árið 2021

29.05.19 | Fréttir
Harbourfront Centre i Toronto
Photographer
Mike Lee

Harbourfront Centre í Toronto

Menningarmálaráðherrar Norðurlandanna ákváðu á fundi sínum í dag að næsta sameiginlega menningarverkefni landanna fari fram í Kanada árið 2021. Hörð samkeppni var um gestgjafahlutverkið en í umsókn Kanadamanna var lögð áhersla á listræna nýsköpun, þátttöku allra og sjálfbærni auk þess að efla norræn samskipti í fleiri borgum eins og Toronto, Halifax, Vancouver og Iqaluit.

„Það er okkur mikil ánægja að kynna Kanada til leiks sem næsta gestgjafa norræns menningarverkefnis árið 2021. Fyrri verkefni, sem meðal annars hafa farið fram í Lundúnum og Washington, hafa reynst kærkomin tækifæri til þess að auka skapandi samstarf landanna og beint kastljósi heimsins að norrænni menningu í víðum skilningi. Dagskráin í Kanada verður metnaðarfull, fjölbreytt og fræðandi – ég hvet alla til þess að fylgjast vel með þessu verkefni. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra en Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um menningarmál á þessu ári.

Dagskráin í Kanada verður metnaðarfull, fjölbreytt og fræðandi – ég hvet alla til þess að fylgjast vel með þessu verkefni. Það eru spennandi tímar framundan.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra Íslands

Mikill áhugi

Boð voru send til sendiráða Norðurlandanna víðs vegar um heiminn í nóvember þar sem óskað var eftir tilnefningum og hugmyndum að staðsetningu næsta menningarverkefnis. Alls bárust 23 metnaðarfullar tillögur og voru átta valdar til frekari rýni. 

Sigurtillagan felst í umfangsmiklu samstarfi Norðurlandanna og Kanada þar sem kannað er gegnum menningu og listir það sem sameinar þjóðirnar og það sem gerir þær frábrugðnar hver annarri. Ýmsar listgreinar koma að dagskránni sem fer fram víða í Kanada, frá vesturströnd til austurstrandar og frá norðri til suðurs.

Sjálfbærnivídd tillögunnar er greinileg þar sem listafólkið rannsakar í sköpun sinni sjálfbærni og markmiðið um kolefnishlutleysi. Tengingin við staðinn er sterk vegna öflugra samstarfsaðila á við menningarstofnunina Harbourfront Centre í Toronto.

Menningarverkefnið í Kanada stendur yfir allt árið 2021 og hlýtur rúmar 92 milljónir ísl. kr. í styrk frá Norrænu ráðherranefndinni um menningarmál.

 

Öflugt samstarf

Markmiðið með sameiginlegu menningarverkefni Norðurlandanna er meðal annars að efla samskipti norrænna menningargreina, kynna norræna menningu og skapa virðisauka fyrir þátttakendur. Því var það mat menningarmálaráðherranna að mikilvægt væri að sem flestum gæfist kostur á að tjá sig um tillögurnar.

Tillögurnar voru sendar til umsagnar yfirvalda, samtaka og menningarstofnana víðs vegar á Norðurlöndum og til norræns ráðgjafarhóps. Sérstaklega var horft til þess að tillögurnar hefðu sterka tengingu við staðinn, alþjóðlega vídd og væru líklegar til þess að vekja áhuga listafólks. Þá var tekið tillit til sjónarhorns barna og ungmenna, jafnréttismála og sjálfbærrar þróunar.

 

Norræn menning og listir í Evrópu

Auk þess að velja Kanada sem gestgjafa fyrir næsta sameiginlega menningarverkefni ákváðu menningarmálaráðherrarnir að veita styrk til metnaðarfullrar menningardagskrár í Brussel með það fyrir augum að styrkja og auka hlut norrænnar menningar og lista í Evrópu á vettvangi BOZAR, stærstu menningar- og listamiðstöðvar Belgíu, á tímabilinu 2019–2020.

Ákvörðunin um norræna menningarverkefnið var tekin á rafrænum ráðherrafundi 29. maí undir stjórn Íslands sem gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2019.