Barátta Norðurlandaráðs fyrir jafnrétti heldur áfram

12.11.20 | Fréttir
Kvinder på arbejdsmarkedet
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur lagt línur fyrir jafnréttisstarf sitt, þar sem ýmsar nýjar áskoranir hafa komið til sögunnar vegna COVID 19. Áherslusvið nefndarinnar fyrir árið 2021 eru vinnumarkaðurinn, fjölskyldulífið og áreitni í garð viðkvæmra hópa og kynja á samfélagsmiðlum.

„Við vitum að heimsfaraldurinn hefur önnur áhrif á konur en karla. Skortur á jafnrétti innan heimilisins er beintengdur ónógu jafnrétti á vinnumarkaði. Konur hafa tekið á sig aukna umönnunarbyrði vegna heimsfaraldursins. Þannig verður ástandið til þess að festa gömul kynjahlutverk í sessi. Innan norska háskólasamfélagsins sést til dæmis að karlar hafa birt hlutfallslega fleiri greinar síðan heimsfaraldurinn skall á en hlutur kvenna fer minnkandi að sama skapi. Þetta sýnir hve skökk jafnréttisvogin er í samfélögum Norðurlanda og einnig það að Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð bera sameiginlega ábyrgð á að vinna að því að þessi ójöfnuður skjóti ekki frekari rótum í heimsfaraldrinum og eftir að hann er yfirstaðinn,“ segir Nina Sandberg, talsmaður jafnréttismála í velferðarnefnd Norðurlandaráðs.

Aðdragandi þessarar yfirlýsingar er pólitískur samráðsfundur nefndarinnar um norræna jafnlaunavottun með danska atvinnumálaráðherranum, Peter Hummelgaard. Á fundinum beindi nefndin tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að þróa sameiginlega norræna jafnlaunavottun í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, sem vinnustöðum á Norðurlöndum stæði til boða að nota. Ekki náðist samkomulag milli aðilanna tveggja á fundinum um tilmæli nefndarinnar um sameiginlega norræna jafnlaunavottun. Tengill á tilmælin er neðst í fréttinni.

Þannig verður ástandið til þess að festa gömul kynjahlutverk í sessi

Nina Sandberg, Norðurlandaráði

Jafnrétti 2021

Velferðarnefndin ákvað nýverið að leggja áherslu á eftirfarandi málefni á sviði jafnréttis á næsta ári: Jafnrétti á vinnumarkaði og í félagslífi með áherslu á m.a. kyn, kynverund og jaðarsetta hópa. Einnig starfar nefndin áfram að því að miðla íslenska líkaninu að jafnlaunavottun á vinnumarkaði til annarra norrænna landa.

Velferðarnefndinni hefur skilist að einnig sé mikið um áreitni og hótanir á samfélagsmiðlum, sem ógnar hinu lýðræðislega norræna líkani með almennum hætti – og bitnar sérstaklega á konum og jaðarsettum hópum. Á árinu 2021 vill nefndin vinna saman að því að fyrirbyggja slíkt.