Enginn upplifi sig utangarðs á Norðurlöndum

21.01.19 | Fréttir
Unge og udenforskab
Photographer
Ritzau Scanpix
Velferðarnefnd Norðurlandaráðs vill beita sér fyrir því að Norðurlönd verði í fararbroddi við að sporna gegn félagslegri einangrun, með mið af „Þekking sem nýtist“, stefnumótandi úttekt sem gerð var á norrænu samstarfi á sviði félagsmála. Markmiðið er að Norðurlönd verði samþættasta svæði í heimi. Leiðin að því felst meðal annars í félagslegum fjárfestingum og forvörnum.

„Enginn á að þurfa að upplifa sig utangarðs á Norðurlöndum. Þess vegna ber okkur skylda til að tryggja bestu mögulegu innviði og starfshætti á sviði félagsmála fyrir ungmenni í erfiðri stöðu og fleiri hópa,“ segir Bente Stein Mathisen, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Tillagan um að stemma stigu við félagslegri einangrun var lögð fram af flokkahópi jafnaðarmanna á þingi Norðurlandaráðs í Ósló fyrir jól. Á fyrsta fundi ársins í Reykjavík ákvað velferðarnefnd Norðurlandaráðs að vinna áfram með tillöguna og beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að hefja vinnu að því að styrkja innviði og hvata til að efla félagslegar fjárfestingar og forvarnarstarf í baráttunni gegn félagslegri einangrun.  

Enginn á að þurfa að upplifa sig utangarðs á Norðurlöndum. Þess vegna ber okkur skylda til að tryggja bestu mögulegu innviði og starfshætti á sviði félagsmála fyrir ungmenni í erfiðri stöðu og fleiri hópa.

Bente Stein Mathiesen, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Fleiri hópar í hættu – þar á meðal ungt fólk

Með félagslegri einangrun er átt við það þegar einstaklingum finnst þeir ekki eiga hlutdeild í samfélaginu og eru af þeim sökum í áhættuhópi hvað varðar heilsufarsleg og félagsleg vandamál og vanlíðan. Sérstakir áhættuhópar í þessu sambandi geta verið innflytjendur, fólk með geðræn vandamál, fatlanir eða fíknivanda, eða ungt fólk sem kemur úr slæmum félagslegum aðstæðum. Þessir einstaklingar geta verið ólíkir innbyrðis en átt það þó sameiginlegt að búa í samfélagi sem ekki kemur alltaf til móts við þarfir þeirra. Oft einkennir það til dæmis ungmenni í erfiðri stöðu að þau hafa flosnað upp úr námi, taka ekki þátt í félagsstarfi, eiga illa stæða foreldra og eru orðin vantrúuð á að þau eigi sér framtíð í samfélaginu sem þau eiga að heita hluti af. Anna Falkenberg, fulltrúi í Norðurlandaráði æskunnar, lítur starfið gegn félagslegri einangrun jákvæðum augum og segir: 
„Brýnt er að leggja áherslu á forvarnir og ólíka hópa ungmenna. Því fyrr sem gripið er inn í aðstæður, því betra fyrir ungmennin og samfélagið.“  
 

Félagslegar fjárfestingar og forvarnir 

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs byggir starfið gegn félagslegri einangrun á úttekt sem gerð var á sviði félagsmála undir yfirskriftinni „Þekking sem nýtist“, en í henni eru 14 tillögur að betrumbótum í félagsmálum á Norðurlöndum. Tvö málefni eru einkum mikilvæg að mati velferðarnefndarinnar til að stemma stigu við félagslegri einangrun: Félagslegar fjárfestingar og forvarnir. Félagslegar fjárfestingar ganga út á að móta kerfi sem veita svigrúm fyrir nýjar lausnir sem þjóna langtímamarkmiðum en skila ekki ávinningi til skamms tíma. Slíkar lausnir getur verið erfitt að útskýra áþreifanlega fyrir almenningi. Í sinni einföldustu mynd ganga forvarnir út á að grípa inn í aðstæður áður en skaðinn er skeður. Þetta getur einnig verið flókið að útskýra, því hvernig er hægt að taka markvisst á því sem ekki hefur átt sér stað? 
 

Brýnt er að leggja áherslu á forvarnir og ólíka hópa ungmenna. Því fyrr sem gripið er inn í aðstæður, því betra fyrir ungmennin og samfélagið.  

Anna Falkenberg, Norðurlandaráði æskunnar

Miðlið því sem skilar árangri. Hættið því sem skilar ekki árangri.

Hér skortir ekki áskoranir. Einmitt þess vegna vill Norðurlandaráð að Norræna ráðherranefndin vinni að því að móta kerfi og verkefni sem veiti svigrúm fyrir félagslega nýsköpun og forvarnir í baráttunni gegn félagslegri einangrun. Þessum lausnum á svo að deila með eftirfarandi óskir úr úttektinni á sviði félagsmála til hliðsjónar: Miðlið því sem skilar árangri.  Hættið því sem skilar ekki árangri. Þetta mun gagnast bæði einstaklingum og samfélaginu öllu á efnahagslegum grundvelli. Til dæmis sýna rannsóknir í Noregi að hver námsmaður sem lýkur háskólanámi skilar samfélaginu sem nemur einni milljón norskra króna. 
 

Verkefni sem miðar að því að heimsmarkmiðunum verði náð

Markmið í norrænu samstarfi er að Norðurlöndin verði samþættasta svæði í heimi. Þetta verkefni mun stuðla að því að það markmið náist og jafnframt að framfylgd Dagskrár 2030 – heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Nánar tiltekið markmiði 10: Að draga úr ójöfnuði í samfélaginu og gera öllum kleift, án tillits til aldurs, kyns, trúarbragða eða efnahags, að taka þátt í félagslífi og hafa afskipti af efnahagsmálum og stjórnmálum á Norðurlöndum.